18.2.2021 12:42

Grænland tækifæranna

Um þessar mundir er stjórnarkreppa á Grænlandi og þar er boðað til þingkosninga 6. apríl. Flokkaátök og átök innan flokka á Grænlandi eru jafnvel flóknari en hér á landi.

Íslensk stjórnvöld fylgjast náið með því sem gerist á Grænlandi. Þau sýndu áhuga á því fyrir nokkrum árum með því að opna ræðismannsskrifstofu í Nuuk. Nú nýlega skilaði hópur undir forystu Össurar Skarphéðinssonar, fyrrv. utanríkisráðherra, skýrslu um Grænland sem unnin var að frumkvæði Guðlaugs Þ. Þórðarsonar utanríkisráðherra. Þar er litið til þróunar almennt á norðurslóðum með sérstakri áherslu á Grænland og gerðar fjölmargar tillögur um margvísleg efni.

Donald Trump beindi athygli heimsins að Grænlandi þegar hann sagðist vilja kaupa það. Áhugi fasteignaeigandans í Hvíta húsinu sýndi að hann áttaði sig á hve verðmætt Grænland er vegna auðlinda þar og vegna legu landsins. Danska stjórnin varpar ljósi á öryggis- og varnarmál tengd Grænlandi í nýlegri skýrslu um nauðsyn þess að efla varnarmátt Dana í Arktis, á norðurslóðum.

Um þessar mundir er stjórnarkreppa á Grænlandi og þar er boðað til þingkosninga 6. apríl. Flokkaátök og átök innan flokka á Grænlandi eru jafnvel flóknari en hér á landi. Þar hefur sama gerst og hér á undanförnum árum að forystumenn flokka hafa sagt skilið við þá sem hófu þá til valds og áhrifa og stofnað flokka í kringum sjálfa sig. Hér má nefna þrjú dæmi:

VG varð til fyrir 21 ári af því að Steingrímur J. Sigfússon sá ekki fram á nægilegan frama innan Samfylkingarinnar. Viðreisn þrífst í kringum fyrrverandi formann, Þorstein Pálsson, og fyrrverandi varaformann Sjálfstæðisflokksins, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, af því að þeim þótti hvorki tekið nægilegt til ESB-skoðana sinna né þeirra sjálfra. Miðflokkurinn varð til eftir að Framsóknarflokkurinn hafnaði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem forsætisráðherra og formanni.

Hans_egede_malet_d5a9583Skvett var rauðri málningu á styttu af Hans Egede í Nuuk í fyrra. Styttan stendur áfram.

Í leiðara danska blaðsins Jyllands-Posten er í dag (18. febrúar) fjallað um grænlensk stjórnmál. Þar segir að óskir Grænlendinga um sjálfstæði séu skiljanlegar og Danir eigi ekki að standa í vegi þeirra. Á hinn bóginn verði að benda á að leiðin til sjálfstæðis liggi ekki aðeins um námur og hrávöru. Grænlendingar verði að þróa grunnstoðir samfélags síns: félagslegar aðstæður, menntun, mannvirki og gera upp við oflætið sem virðist inngróið í grænlensk stjórnmál. Sé litið til þeirra sem setji mestan svip á flokkana sjö á landsþinginu blasi við afturgöngur og flokkaflakkarar, þar megi nefna Vittus Qujaukitsoq, fyrrv. utanríkisráðherra, sem fór úr Siumut-flokknum eftir að hafa tapað þar fyrir Kim Kielsen, og hafi síðan slegið um sig með hástemmdum yfirlýsingum um aðskilnað frá Dönum með góðum stuðningi frá Aleqa Hammond, fyrrv. landsjórnarformanni, sem sitji undir ásökunum um spillingu.

Jyllands-Posten minnir á að í ár séu 300 ár frá því að Hans Egede kom til Grænlands. Þess hafi verið minnst fyrir 50 árum með því að reisa nýja kirkju í miðbæ Nuuk. Í ár hafi bæjarstjórn Nuuk ákveðið að afturkalla 2,7 m. DKK fjárveitingu sem nýta átti til að minnast þessa atburðar. Í fyrra sumar hafi rauðri málningu verið skvett á styttu af Egede . Þessi identitetspolitik – sjálfsmyndarpólitík – standi því miður í vegi fyrir málefnalegum umræðum um framtíð landsins.