25.8.2020 10:33

Glíman við Lukasjenko

Varleg afstaða ESB mótast af viðurkenningu á að ekkert breytist í Hvíta-Rússlandi nema með þátttöku Rússa.

Alexander Lukasjenko, forseti Hvíta-Rússlands, situr enn sem fastast þrátt fyrir fjöldamótmæli og ásakanir um kosningasvindl 9. ágúst þegar hann var endurkjörinn forseti í sjötta skipti frá 1994.

Í aðdraganda kosninganna ræddu þeir saman Lukasejnko og Vladimir Pútin Rússlandsforseti og athygli vakti að í tengslum við samtöl þeirra leyfði Lukasjenko fámenn mótmæli á götum úti í Minsk gegn tilraunum Pútins til að sölsa Hvíta-Rússland undir sig. Skömmu fyrir kjördag skýrði öryggislögregla Lukasjenkos frá því að 33 ókunnir menn (Rússar?) hefðu fundist í landinu, þeir þóttust á ferð frá Moskvu um Minsk til Miðjarðarhafslanda (!) en hvítrússnesk stjórnvöld töldu verkefni þeirra að skapa glundroða fyrir kjördag og spilla fyrir Lukasjenko.

Eftir kjördag hefur tónn Lukasjenkos í garð Pútins og Rússa breyst og fréttir borist af nokkrum vinsamlegum símtölum þeirra þar sem Pútin lýsti stuðningi við Lukasjenko. Xi Jinping, forseti Kína, varð fyrstur þjóðhöfðingja til að óska Lukasjenko til hamingju með endurkjörið.

54671762_303Staðinn vörður um Lukasjenko.

Allir standa þessir einræðisstjórnendur framm fyrir þeirri staðreynd að almenn óánægja með Lukasjenko á heimavelli hefur leitt til sjálfsprottinna mótmæla gegn honum og herma fréttir að um 150.000 manns hafi farið út á götur Minsk sunnudaginn, 23. ágúst, tveimur vikum eftir kjördag, til að árétta andstöðu sína við Lukasjenko.

Hvítrússneski forsetinn sakar NATO og ESB um að standa að baki andstöðunni við sig og gaf fyrirmæli um heræfingar við landamæri NATO-ríkjanna Litháens og Póllands. Það er holur hljómur í þessari samsæriskenningu enda á hún ekki við nein rök að styðjast.

Leiðtogar Evrópuríkja lýstu snarlega samstöðu með hvítrússnesku mótmælendunum, þeir vilja verja lýðræðisleg gildi, heiðarlegar kosningar og réttarríkið en þeir vilja ekki gera neitt sem unnt er að kalla ögrun og sé átylla Lukasjenko og Pútin til að grípa til hervalds. Þeir hvetja til viðræðna milli Lukasjenkos og fulltrúa mótmælenda um friðsamlega afsögn forsetans í ferli sem um verði samið.

Varleg afstaða ESB mótast af viðurkenningu á að ekkert breytist í Hvíta-Rússlandi nema með þátttöku Rússa og vonandi sé unnt að virkja þá á annan veg en þann að þeir hrifsi völdin í Minsk í sínar hendur.

Í Úkraínu 2014 snerist ágreiningur ráðamanna um val milli náinna tengsla við Rússa eða ESB. Þeir sem vildu snúa sér í vestur höfðu betur og Pútin hefndi sín með innlimun Krímskaga og hernaði í austurhluta Úkraínu.

Árið 2018 leiddu fjöldamótmæli í Armeníu til þess að þaulsetinn forseti, Serzh Sarkisian, hliðhollur Rússum, hrökklaðist frá völdum og við tók andstæðingur hans Nikol Pashinian sem ákvað að rækta áfram góð tengsl við Pútin.

Carl Bildt, fyrrv. utanríkisráðherra Svíar, segir að nota eigi stjórnarskiptin í Armeníu sem fyrirmynd í Hvíta-Rússlandi en ekki það sem gerðist í Úkraínu.

Vandinn er sá að Alexander Lukasjenko er ekki á þeim buxunum að fara að fordæmi Serzh Sarkisians heldur mundar vopn og segir að fyrr þurfi „þeir“ að drepa sig áður en hann segi af sér!