2.4.2021 11:39

Gleðileikur Dantes umritaður

Fréttir herma að unnið sé að nýrri þýðingu á Gleðileiknum á hollensku og þar hafi ritstjórar ákveðið að umorða kafla í Vítinu þar sem segir frá því þegar Dante hittir þar fyrir sögufrægar persónur.

Gleðileikurinn guðdómlegi eftir ítalska skáldið Dante Alighieri (1265–1321) var saminn á árunum 1307–1320. Í kvæðinu segir Dante frá ferð sinni um víti, hreinsunareld og paradís í fylgd rómverska skáldsins Virgils og sinnar ástkæru Beatrísar. Gleðileikurinn kom í fyrsta sinn út í heild á íslensku árið 2010 í lausamálsþýðingu Erlings E. Halldórssonar. Dante - Víti úr Gleðileiknum guðdómlega í þýðingu Einars Thoroddsens kom út árið 2018. Guðmundur Böðvarsson skáld þýddi Tólf kviður úr Gleðileiknum guðdómlega sem komu út árið 1968.

73bb0c50-d5be-11e8-a63c-d02d13bfdfa2_dante-kSE-U1120839708997itC-1024x576atLaStampa.it-Home-20Page.jpg-f-detail_558-h-720-w-1280-p-f-h-w-f689956Fréttir herma að unnið sé að nýrri þýðingu á Gleðileiknum á hollensku og þar hafi ritstjórar ákveðið að umorða kafla í Vítinu þar sem segir frá því þegar Dante hittir þar fyrir sögufrægar persónur, dæmdar til vistar í neðra vegna synda sinna. Meðal þeirra er Múhammeð spámaður, sakaður um að hafa valdið stríði og sundrung meðal manna með trúarboðskap sínum. Í nýju hollensku þýðingunni er nafn spámannsins afmáð. Útgefandinn og þýðandinn segja að þá sé verkið vingjarnlegra og aðgengilegra, valdi ekki uppnámi lesenda. Með þeim orðum er vísað til múslima.

Í leiðara danska blaðsins Jyllands-Posten er réttilega lýst hneykslun á þessari ákvörðun Hollendinganna og hún talin til marks um að látið sé undan ofbeldi eða hótun um það. Múslimar hafi fyrst beitt aðferðinni opinberlega gegn rithöfundinum Salman Rushdie árið 1989 vegna bókar hans Söngvar Satans frá 1988. Rushdie var hótað lífláti, fór árum saman huldu höfði og sætir mikilli öryggisgæslu.

Ritstjórar Jyllands-Posten geta trútt um talað. Blaðið beitti sér á sínum tíma fyrir því að danskir blaðateiknarar kepptu um að teikna myndir af Múhammeð sem blaðið myndi birta. Tilgangurinn var að láta reyna á þanþol skoðanafrelsis. Blaðið birti 12 þessara teikninga 30. september 2005. Flemming Rose menningarritstjóri fylgdi teikningunum úr hlaði og ræddi ótta á miðlum og menningarstofnunum þar sem sjálfsritskoðun ríkti af tilliti til islam.

Í fyrstu var deilt um birtingu myndanna að hætti Dana. Undir niðri kraumaði reiði múslima. Hún braust fram í desember 2005, fyrst í Egyptalandi síðan Líbanon og Sýrlandi.

Þessi saga verður ekki rakin frekar hér en í dag (2. apríl 2021) segir Jyllands-Posten í leiðara að frá 2008 hafi ekkert danskt blað endurbirt teikninguna eftir Kurt Westergaard, sem olli mestri reiði. Endurbirtinguna 2008 mátti rekja til misheppnaðrar hryðjuverkaárásar á Westergaard.

Segir í leiðaranum að öryggi starfsmanna blaðsins sé ofar öllu öðru. Engin teikning sé meira virði en mannslíf. Ritstjórnin nýti sér skoðanafrelsið hvern einasta dag en viðurkenni þó heiðarlega að tekið sé tillit til annars. Það sé hins vegar misskilningur að hættan minnki við að láta undan ofbeldi og ógnunum. Sjálfsritskoðunin í hollensku útgáfunni á meistaraverkinu eftir Dante sé aðeins dæmi um hve þrengt sé að málfrelsinu um þessar mundir og hve dapurleg mynd birtist þar af uppgjöf og máttleysi andspænis ofstæki.

Hér eru íslensku þýðingarnar sem minnst var á í upphafi ekki við hendina. Hafi Múhammeð verið skrifaður út úr þeim hefur það farið hljóðlega.