1.1.2021 11:30

Gleðilegt ár!

Ár veirunnar er kvatt þegar sigur á henni er í augsýn í krafti vísindanna. Vegferðin heldur áfram inn í nýtt ár án þess að við höfum annað en reynsluna að leiðarljósi.

Líta má til alþjóðlegra strauma í kringum okkur við áramótin án þess að láta farsóttina byrgja sér sýn. Með miklu vísindaafreki við gerð bóluefna tekst að sigrast á veirunni. Spurningin er um tíma og útbreiðslu bóluefnisins. Ónauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að verða taglhnýtingar Evrópusambandsins vegna bóluefna.

Þrjár enskumælandi nágrannaþjóðir okkar, Bandaríkjamenn, Kanadamenn og Bretar hafa tekið sjálfstæðar ákvarðanir um bóluefni og bólusetningar. Þetta eru þjóðir sem skapa umgjörð öryggismála á Norður-Atlantshafi og munu allar láta meira að sér kveða á því sviði á nýbyrjuðu ári. Það er umhugsunarvert að þeir sem virðast helst standa gegn því að efla samstarf ríkisins við einkaaðila til að sigrast á veirunni fylgja alþjóðastefnu sem reist er á andúð í garð NATO og varnarsamstarfs við Bandaríkin.

IMG_2786Mynd tekin í Öskjuhlið 30. desember 2020 kl. 10.45

Þetta er pólitískt viðhorf sem tekur ekki mið af þróun og stefnu líðandi stundar og reynist því tímaskekkja þegar á reynir. Yrði þessi skoðun ráðandi lenti þjóðin í öngstræti í alþjóðasamstarfi ekki aðeins vegna þess að hún fjarlægðist öflugar Norður-Atlantshafsþjóðir heldur dagaði hún einnig uppi í norrænu samstarfi sem snýst æ meira um utanríkis- og öryggismál eins og áréttað var af norrænu utanríkisráðherrunum á árinu 2020. Varnarsamstarf norrænu ríkjanna og tengsl þeirra allra við Bandaríkin og Bretland á vettvangi NATO og annars staðar er sögulegasta breytingin sem orðið hefur í öryggismálum Íslands frá því að landið gekk í NATO 1949 og gerði varnarsamninginn við Bandaríkin 1951 en 70 ára afmælis hans verður minnst 5. maí 2021.

Stóra breytan í nágrenni okkar um þessi áramót er upphaf fríverslunarsamskipta Breta og ESB. Eftir ESB-úrsagnarviðræður í rúm fjögur ár var fullveldissamningur Breta sem kynntur var á aðfangadag 2020 samþykktur á undravert skömmum tíma af ríkisstjórnum ESB-ríkjanna 27 og breska þinginu með 521 atkvæði gegn 73 miðvikudaginn 30. desember 2020.

Á skömmum tíma um jólin var kynningin á efni samningsins aðeins yfirborðs- og áróðurskennd. Það skýrist nánar á næstu vikum og mánuðum hver áhrif samningsins verða í raun á almennt samstarf ESB við þriðju ríkin í Evrópu: Sviss, EES/EFTA-ríkin þrjú og Bretland. Hér hefur til dæmis ekkert verið rætt hver áhrif úrsagnar Breta úr Erasmus-samstarfinu eru fyrir íslenska nemendur og skóla.

Allt gerist þetta hér í okkar hluta heims þegar kínverska ríkisstjórnin sýnir sífellt meira harðræði á heimavelli og hörkulegri hagsmunagæslu á alþjóðavettvangi. Norrænu utanríkisráðherrarnir hafa samþykkt að stilla saman strengi sína gagnvart netógnum Rússa og Kínverja og unnið er að framkvæmd þeirra ákvarðana hér á landi. Í netheimum eru átök háð undir þeim formerkjum að valda þar sem mestum skaða án þess sökudólgur finnist eða árás breytist í raunheimaátök.

Ár veirunnar er kvatt þegar sigur á henni er í augsýn í krafti vísindanna. Vegferðin heldur áfram inn í nýtt ár án þess að við höfum annað en reynsluna að leiðarljósi.