24.12.2023 11:23

Gleðileg jól!

Samband ríkis og kirkju er flókið fyrirbrigði sem tekur á sig ýmsar myndir.

Hér nýtur þjóðkirkjan verndar í 62. gr. stjórnarskrárinnar: „Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Innri málefni kirkjunnar eru í hennar höndum eins augljóst varð um mitt ár þegar spurningar vöknuðu um umboð biskupsins yfir Íslandi. Kirkjuþing leysti þann vanda á haustmánuðum. Kirkjumálaráðuneytið er nafnið tómt þegar að málefnum þjóðkirkjunnar kemur.

Hér var stjórnarfarið í þessum efnum svipað því sem enn er í Danmörku. Þar situr sérstakur kirkjumálaráðherra í ríkisstjórninni. Morten Dahlin úr Venstre-flokknum tók nýlega við embættinu. Í samtali af því tilefni sagði hann að Danmörk væri kristið land og hann ætlaði sér að halda fram kristnum gildum og stemma stigu við trúarlegum öfgum.

IMG_8959Desembermorgunn á Tjörninni.

Þessi orð ráðherrans hafa orðið til þess að sr. Pia Søltoft, sóknarprestur í Christians Kirke og Esajas Kirke, stofnandi Coaching-Kierkegaard, gagnrýnir ráðherrann í grein sem birtist á altinget.dk 24. desember, aðfangadag.

Sóknarpresturinn segir að með ummælum sínum um kristin grunngildi stofni ráðherrann til ónauðsynlegra átaka. Þau sýni að ráðherrann skilji hvorki kjarna fyrirgefningarinnar né náungakærleikans í kristnum boðskap. Kirkjumálaráðherrann ætti að leita sér guðfræðilegrar ráðgjafar svo hann afflytji ekki kristin gildi og hvetji til baráttu gegn þeim sem séu annarrar trúar í landi þar sem trúfrelsi sé tryggt í stjórnarskránni. Það er ekki aðeins óskynsamlegt að mati Piu Søltoft heldur einnig ókristilegt.

Í samtalinu sagði ráðherrann að hann liti á sig sem vin danska gyðingasamfélagsins. Þetta segir Pia Søltoft að stuðli ekki að fyrirgefningu og náungakærleik heldur að stríði og hatri.

Danski presturinn vitnar í dönsku stjórnarskrána þar sem er ákvæði eins og í 62. gr. ísl. stjórnarskrárinnar og segir að það sýni að þrátt fyrir trúfrelsi ríki ekki jafnrétti á milli trúarbragða. Ráðherrann hafi því rétt fyrir sér þegar hann segi Danmörku kristið land. Árið 2022 voru 76,9% Dana í þjóðkirkjunni.

Søltoft segir að í grunnskólum sé fleiri tímum varið til að fræða um kristna trú en önnur trúarbrögð. Þá sé í þjónustusamningi danska ríkisins við danska ríkisútvarpið DR fyrir árin 2023 til 2025 tekið fram að DR eigi að sinna danskri list og menningu „þar með kristna menningararfinum“.

Hún bendir á að ytri tákn, setning þings með guðþjónustu, hvítur kross í fánanum, fjöldi kirkna og sókna beri með sér að um kristið land sé að ræða. Það jafngildi ekki því að Danir lifi í anda kristinna gilda og hafi efni á að segja öðrum til syndanna vegna þess.

Samband ríkis og kirkju er flókið fyrirbrigði sem tekur á sig ýmsar myndir eins og þessi frásögn sýnir. Þegar stjórnmálamaður er skipaður kirkjumálaráðherra hættir hann ekki að tala sem stjórnmálamaður. Að hann brjóti gegn kristnum boðskap með því að taka upp merki kristninnar er þungbær þverstæða.

Gleðileg jól!