13.6.2022 10:42

Glæpsamleg pólitík Pútins

Það var Emmanuel Macron Frakklandsforseti sem hneykslaði marga með því að vara við því að Pútin yrði „niðurlægður“. Forsetinn sætir einnig gagnrýni fyrir símtöl sín við Pútin.

Mikhail Kassianov (64 ára) var forsætisráðherra Rússlands fyrstu fjögur árin 2000 til 2004( sem Vladimir Pútin var forseti. Hann stofnaði síðar flokk í andstöðu við Pútin en býr landflótta einhvers staðar utan Rússlands. Franska AFP-fréttastofan ræddi við hann á dögunum. Þykir það eitt í frásögur færandi því að Kassianov vill forðast kastljós fjölmiðla. Hann óttast um líf sitt eins og aðrir gagnrýnendur Pútins.

Kassianov segir að nú birtist umheiminum annar Pútin en hann þekkti. Forsætisráðherrann fyrrverandi trúði ekki að til stríðs kæmi fyrr en hann sá útsendingu frá fundinum fræga í rússneska öryggisráðinu þremur dögum fyrir innrásina. Hann segist hafa þekkt fundarmenn og framganga þeirra og Pútins sjálfs hefði sannfært sig um að ófriður væri í aðsigi. Hann hafi séð að Pútin væri ekki eins og „hann á að sér að vera. Þá tala ég ekki um heilsu hans heldur pólitíkina,“ segir Kassianov.

28433k12Vladimir Pútin og Mikhail Kassianov funda skömmu eftir aldamótin 2000.

Þegar hann ræðir stjórnarhættina undir Pútin segir hann að þeir séu enn kuldalegri og grimmdarlegri en á lokadögum Sovétríkjanna. Öryggislögreglan fari sínu fram refsilaust og ýtt sé undir ótta almennings við stjórnvöld. Kassianov lýsir með öðrum orðum að ógnarstjórn ráði lögum og lofum.

Hann segir að falli Úkraína komi röðin næst að Eystrasaltslöndunum. Hann segist hafna algjörlega hugmyndinni um að ekki megi niðurlægja Vladimir Pútin og þeim sjónarmiðum að Úkraínumenn afsali sér ráðum yfir landi í skiptum fyrir frið: „Hvað hefur Pútin gert til að eiga þetta skilið?“ spyr hann. „Ég tel slíkt mistök og vona að Vestrið fari ekki þessa leið.“

Kassianov telur að öryggislögreglan haldi enn í völdin eftir að Pútin hverfur úr embætti en ekki líði á löngu eftir það þar til að efnt verði til lýðræðislegra kosninga í Rússlandi. Það taki þó langan tíma enn að afmá leifar kommúnismans og pútinismans. Það verði mjög erfitt verkefni einkum eftir glæpsamlegt stríðið í Úkraínu.

Það var Emmanuel Macron Frakklandsforseti sem hneykslaði marga með því að vara við því að Pútin yrði „niðurlægður“. Forsetinn sætir einnig gagnrýni fyrir símtöl sín við Pútin.

Andrzej Duda, forseti Póllands, vék að þessum símtölum Macrons og Olafs Scholz Þýskalandskanslara í samtali við þýska blaðið Bild miðvikudaginn 8. júní. Hann sagði þau „gagnslaus“ og spurði:

„Talaði einhver svona við Adolf Hitler í síðari heimsstyrjöldinni? Sagði einhver að Adolf Hitler yrði að bjarga andlitinu? Að við ættum að ganga fram á þann hátt að Adolf Hitler yrði ekki niðurlægður? Ég hef ekki heyrt slíkar raddir?“

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti tók í sama streng í samtali við The Financial Times miðvikudaginn 9. júní. Hann sagðist ekki skilja hvað niðurlægði Rússa. Hvort það væri sú staðreynd að þeir hefðu drepið Úkraínumenn í átta ár? Rússar niðurlægðu ekki Úkraínumenn heldur dræpu þá og þeim yrði að svara í sömu mynt.

Stjórnendur Eystrasaltsríkjanna hafa jafnmikla skömm á daðri Macrons og Scholz við Pútin og Kassianov, Duda og Zelenskíj. Lönd þeirra eru næst á aftökulistanum falli Úkraína.