Glæpir og COVID-19
Ef ekki var talið unnt að banna þessu fólki að koma hér í land hefði átt að skylda það til að hlaða rakninga-appinu í síma sína.
Af fréttum má ráða að á rúmum sólarhring hafi verið haft upp á 11 Rúmenum sem komu hingað til lands í fyrri viku. Áttu þau að vera tvær vikur í sóttkví en höfðu þá kröfu að engu. Einhverjir þeirra brutu lög með búðarhnupli. Tveir greindust með COVID-19-veiruna og voru settir í sóttkví.
Þegar lögregla rannsakaði hóp sex Rúmena að kvöldi laugardags 13. júní vöknuðu grunsemdir um að þeir væru í slagtogi með fimm eða sex samlöndum sínum og var hafin leit að þeim.
Fimm Rúmenar komu svo í tveimur leigubílum til lögreglustöðvarinnar við Hlemm klukkan tvö aðfaranótt mánudags 15. júní. Hópurinn sagði lögreglunni að hann hefði kosið að taka leigubíl á stöðina, það hefði verið einfalt enda hefðu þau ekki nennt að tilkynna breyttan dvalarstað í sóttkví með símtali. Hópurinn var fluttur í sóttvarnahúsið við Rauðarárstíg og bílstjórum leigubílanna skipað að fara í sóttkví. Í Morgunblaðinu segir að 16 lögreglumenn verði að fara í sóttkví vegna afskipta af Rúmenunum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vill að þeir í hópi Rúmenanna sem ekki eru með veiruna verði fluttir úr landi. Þá segir hann að mál Rúmenana sýni að það hafi verið rétt ákvörðun að hætta við að taka mark á vottorðum erlendis frá um að menn væru ekki sýktir. Það væri unnt að falsa slík vottorð.
Þessa mynd tók Sigurður Unnar Ragnarsson og birtist hún á mbl.is. Myndin er tekin við sóttvarnahúsið á Rauðarárstíg sunnudaginn 14. júní 2020. Rúmeninn sem fluttur er í húsið er svartklæddur og kemur úr sendibíl umkringdur sóttvarnafólki í verndarklæðum.
Á mbl.is sunnudaginn 14. júní sagði:
„Þetta er angi af skipulagðri glæpastarfsemi, það er í raun ekki hægt að orða það öðruvísi,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, lögreglufulltrúi og verkefnastjóri hjá almannavörnum, við mbl.is. Hann telur komu sex [nú 11] rúmenskra einstaklinga til landsins í síðustu viku fylgja mynstri sem hefur endurtekið sig síðustu ár hér á landi, þar sem erlendir hópar leita hingað til þess að stunda innbrot og þjófnað.“
Í fréttum segir að Rúmenarnir hafi komið hingað frá London. Sé það rétt urðu þeir að fara í vegabréfaskoðun við komu til landsins þar sem Bretland er utan Schengen-svæðisins. Landamæralögreglan hefur auk þess margar aðrar leiðir til að kanna bakgrunn þeirra sem koma til landsins hvort sem er frá Schengen-svæðinu eða löndum utan þess.
Vekur furðu í ljósi þess sem haft er Rögnvaldi Ólafssyni að lögregla hafi ekki gripið til sérstakra ráðstafana þegar vitað var að þessi hópur var á leið til landsins. Á sínum tíma var snúist gegn Vítisenglum og þeim haldið frá landinu. Sama á auðvitað að gera við aðra skipulagða glæpahópa.
Ef ekki var talið unnt að banna þessu fólki að koma hér í land hefði átt að skylda það til að hlaða rakninga-appinu í síma sína. Úr því að þetta app er komið til sögunnar ætti íhuga notkun þess til að verja þjóðina fyrir fleiru en sjúkdómsveirum. Sé unnt að nýta ráðstafanir gegn COVID-19 til að stemma stigu við komu glæpamanna í ránsferðum til landsins ber að sjálfsögðu að gera það.