15.7.2022 12:53

Gjöld gegn sjávarútvegi

Umræðan á með öðrum orðum áfram að snúast um að gelda sjávarútvegsfyrirtækin með skattheimtu og gjaldtöku.

Viðbrögð margra við kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík bera vott um að leitað sé logandi ljósi að því að gera þau tortryggileg. Þeir sem ákvarðanir tóku um viðskiptin hafa vafalaust átt von á slíkum viðbrögðum. Sérfræðingar um alla þætti málsins hafa örugglega rakið alla þræði til enda og búðið sig undir gagnrýni og svör við henni.

Nú gerist það sem algengt er að tilfinningarnar ráða fyrstu viðbrögðum og síðan er horfst í augu við staðreyndir. Degi B. Eggertssyni borgarstjóra var fyrst hugsað til sjónvarpsþáttanna Verbúðarinnar án þess að skýra nánar hvað fælist í þeim hugrenningatengslum. Hver eru líkindin með þessum viðskiptum og því sem lýst er sjónvarpsþáttunum? Spurði einhver borgarstjórann um það? Það var hins vegar bent á að afskipti hans af málinu benti til að brátt lýsti hann yfir framboði til formennsku í Samfylkingunni. Hann væri að máta sig í það hlutverk. Dagur B. sló á allt tal í þá veru, hann væri ekki á leið í formannsframboð.

Sildarvinnslan_svaedi_feb_2021_HS-980x735Athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.. (Ljósm. Hlynur Sveinsson.)

Indriði H. Þorláksson, fyrrv. embættismaður og sérlegur ráðgjafi Steingríms J. Sigfússonar í fjármálaráðuneytinu, er áhugamaður um há veiðigjöld. Í grein í Fréttablaðinu í dag varar hann við því að samþjöppun aflaheimilda sé gerð að aðalatriði í umræðum um kaupin á Vísi. Umræðurnar eigi að snúast um orsök samþjöppunarinnar, hún sé „afleiðing vandans en ekki orsök hans“. Orsökin sé að stjórnvöld hafi „búið til kerfi sem býr til mikla auðlindarentu í sjávarútvegi sem þau [hafi] afhent hópi útvaldra með gjafakvótum og nýtingarheimildum án endurgjalds“.

Indriði H. hefur vafalaust einhvern tíma hannað skýringu á orðinu „gjafakvóti“ fyrst hann notar það eins og óumdeilt. Þegar kvótakerfið varð til fyrir tæpum 40 árum var það reist á lögmæltum grunni þar sem veiðireynsla var lögð til grundvallar. Síðan var framsal heimildanna sem við þetta sköpuðust lögfest um 1990 og þar með lagður grunnurinn sem skapar „vandann“ að mati Indriða H. Að þeirri lagasetningu stóðu vinstri flokkarnir sem þá voru: Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur sem síðan hafa hver með sínum hætti og sumir undir nýjum nöfnum viljað „kaupa“ sig frá ákvörðunum sínum með auðlindagjaldi sem Indriði H. telur að hækka eigi til mikilla muna. Hann telur að auðlindarentu þjóðarinnar hafi verið „rænt“ og rekja megi auðsöfnun útgerðarmanna til þess.

Sjávarútvegsfyrirtækin starfa ekki á samkeppnismarkaði hér á landi. Um 98% af framleiðslu þeirra fer á erlendan markað. „Samþjöppun á eignarhaldi í sjávarútvegi verður ekki stöðvuð af samkeppnisyfirvöldum á grundvelli samkeppnislaga,“ segir Indriði H. réttilega.

Umræðan á með öðrum orðum áfram að snúast um að gelda sjávarútvegsfyrirtækin með skattheimtu og gjaldtöku. Veikja þau svo mjög með skattheimtumönnunum að þau skrimti án þess að geta færa út kvíarnar.

Enn er því spurt: Hvaða stjórnmálamenn vilja standa þannig að sjávarútvegi?