31.7.2024 10:23

Gjaldþrota kínversk norðurljós

Íslensk stjórnvöld eiga að beita þeim heimildum sem þau hafa í þágu þjóðaröryggis til að setja kínverskum umsvifum á því sviði sem hér um ræðir skorður.

„Byggðastofnun hefur krafist nauðungarsölu á jörðinni Kárhóli í Reykjadal í Þingeyjarsveit ásamt húsbyggingu sem á jörðinni er, en hvort tveggja er í eigu sjálfseignarstofnunarinnar Aurora Observatory,“ þannig hófst frétt í Morgunblaðinu þriðjudaginn 30. júlí 2024.

Nú eru rúm 10 ár frá því að fulltrúar íslenskra og kínverskra stjórnvalda tóku (2. júní 2014) fyrstu skóflustungu að byggingu húss á Kárhóli sem upphaflega var ætlað að hýsa kínversk-íslenska rannsóknarmiðstöð um norðurljós.

Hornsteinn var lagður 10. október 2016 og fyrstu norðurljósamyndavélarnar voru settar upp í október 2017, segir á vefsíðu Aurora Observatory.

Í tengslum við Hringborð norðursins var mánudaginn 22. október 2018 klippt á borða á Kárhóli til að opna kínversku norðurljósastöðina. Þar voru meðal annarra Ólafur Ragnar Grímsson forseti og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þáv. mennta- og menningarmálaráðherra, auk Jins Zhijians, sendiherra Kína á Íslandi, sem sagði í Morgunblaðinu að fjármagn bæði frá Íslandi og Kína stæði að baki stofnuninni.

Sjálfseignarstofnunin Aurora Observatory (AO) var stofnuð árið 2013 til að annast uppbyggingu og rekstur allrar aðstöðu á Kárhóli. Stofnaðilar voru Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar bs., Atvinnuefling Þingeyjarsveitar ehf., sem er eignarhaldsfélag sveitarfélagsins, Kjarni ehf., sem er eignarhaldsfélag í eigu Þingeyjarsveitar, Sparisjóðs Suður-Þingeyinga og nokkurra einstaklinga í héraði og Arctic Portal ehf.

Slide1_1722421391980Frá Kárhóli (mynd: karholl.is)

Í fréttum segir nú að lán að fjárhæð 120 milljónir króna sem tekið var til að fjármagna húsbyggingu á Kárhóli sé í vanskilum og standi nú í tæplega 180 milljónum.

Ólína Arnkelsdóttir er formaður stjórnar Aurora Observatory en Reinhard Reynisson framkvæmdastjóri. Ólína hefur starfað að sveitarstjórnarmálum í Þingeyjarsveit en Reinhard er starfsmaður Byggðastofnunar.

Afstaða í vísindasamstarfi við Kínverja hefur tekið stakkaskiptum á árunum 10 sem liðin eru frá því að skóflustungan var tekin að Kárhóli. Það kom meðal annars fram í fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, vorið 2023 til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra.

Þingmaðurinn spurði: Hvernig var starfsemi rannsóknamiðstöðvar sem Heimskautastofnun Kína (PRIC) rekur á Kárhóli metin út frá mögulegum áhrifum á þjóðaröryggi?

Ráðherrann svaraði 30. júní 2023: „Íslensk stjórnvöld hafa ekki beina aðkomu að rekstri rannsóknamiðstöðvarinnar á Kárhóli, en tilurð hennar má rekja til rammasamnings um samstarf á norðurslóðum sem undirritaður var af þáverandi utanríkisráðherrum Íslands og Kína árið 2012. Grundvöllur fyrir rannsóknamiðstöðinni er rammasamningur milli Heimskautastofnunar Kína og Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands um rannsóknamiðstöðina China Iceland Arctic Observatory frá 2013. Á þessum tíma fór ekki fram sérstakt mat á starfsemi rannsóknamiðstöðvarinnar út frá mögulegum áhrifum á þjóðaröryggi.“

Þá spurði Andrés Ingi: Hvaða eftirlit hafa stjórnvöld með starfsemi miðstöðvarinnar út frá þjóðaröryggi?

Ráðherrann sagði að íslensk stjórnvöld hefðu ekki beint eftirlit með starfsemi vöktunarrannsókna sem innlendir og erlendir aðilar framkvæmdu á hverju ári á Íslandi. Þar að auki væru engar lagaheimildir í íslenskri löggjöf til að viðhafa sérstakt eftirlit með hliðsjón af þjóðaröryggi umfram rannsóknarheimildir lögreglu. Í nágrannaríkjum Íslands giltu að jafnaði öryggislög sem veittu stjórnvöldum sem fara með varnarmál ýmiss konar heimildir til að tryggja þjóðaröryggishagsmuni en slíkum heimildum væri ekki til að dreifa í íslenskri löggjöf.

Nú þegar allt er í fjárhagslegu óefni á Kárhóli ættu íslensk stjórnvöld að beita þeim heimildum sem þau hafa í þágu þjóðaröryggis til að setja kínverskum umsvifum á því sviði sem hér um ræðir skorður.

Í Þingeyjarsveit gerðu menn sér vonir um að vísindastarfsemi á Kárhóli yrði til þess að efla atvinnulíf. Í stað þess hafa framkvæmdirnar orðið fjárhagslegur baggi á sveitarfélögunum fyrir utan að þjóðaröryggisógn kann að stafa af kínverskum umsvifum í skjóli Kárhóls. Það væri fráleitt að íslenskir skattgreiðendur tækju að sér að bera kostnað af þessum húsakosti.