14.7.2020 10:05

Gildi norrænnar samstöðu

Stórveldakapphlaup á norðurslóðum magnast. Það er yfirlýst markmið allra ríkisstjórna á Norðurlöndum að lágspenna skuli ríkja í norðri.

Sigmundur Arnmundsson skrifar leiðara í Fréttablaðið í dag (14. júlí) um skýrslu mína og tillögurnar 14 til utanríkisráðherra Norðurlandanna. Sigmundur segir meðal annars:

„Stuðningur við norrænt samstarf mælist ítrekað yfirgnæfandi meðal almennings á Íslandi. Ástæðan fyrir því er einföld. Á Norðurlöndunum hafa verið byggð upp samfélög sem skara fram úr hvað lífsgæði varðar þótt þau séu auðvitað ekki fullkomin. Gildi á borð við lýðræði, gagnsæi, jöfnuð og sjálfbærni eru þar leiðarljósið.

Saman hefur rödd Norðurlandanna mikið vægi á alþjóðavettvangi. Tillögur Björns ganga meðal annars út á að nýta þá rödd og þau tækifæri sem í þessu felast. Þannig geta Norðurlöndin og eiga í meira mæli að beita sér fyrir mannréttindum og jafnrétti á víðum grundvelli í alþjóðlegu samstarfi.“

Magnús Þór Hafsteinsson ræddi við mig um skýrsluna á Útvarpi Sögu í gær (13. júlí) eins og heyra má hér . Hann vék einmitt að því sama og Sigmundur að sameiginleg rödd fimm norrænna ríkja hefur mikið vægi á alþjóðavettvangi. Til ríkjanna er litið í mörgu tilliti. Hvert og eitt hafa þau vissulega mörg tækifæri til að láta að sér kveða en sameiginlega vega þau enn þyngra.

Kanadíska ríkisútvarpið stendur að baki vefsíðu sem heitir Eye on the Arctic. Þar birtist föstudaginn 10. júlí grein eftir Eilís Quinn um skýrslu mína eins og sjá má hér. 

Greinin var síðan endurbirt mánudaginn 13. júlí á norsku vefsíðunni Barents Observer.

Í skýrslunni er minnt á að í Suður-Kínahafi brjóti kínversk stjórnvöld gegn hafréttarsáttmála SÞ og sölsi undir sig hafsvæði þar. Þessi brot voru staðfest af alþjóðlegum gerðardómi í Haag árið 2016. Bægja verður þeirri hættu frá Norður-Íshafi að brotið sé gegn hafréttarsáttmálanum þar en öll átta aðildarríki Norðurskautsráðsins vilja að sáttmálinn og reglur hans um lausn deilumála ráði á svæðinu.

IkmagesStórveldakapphlaup á norðurslóðum magnast. Það er yfirlýst markmið allra ríkisstjórna á Norðurlöndum að lágspenna skuli ríkja í norðri. Ef til vill tekst ekki að viðhalda því ástandi og þá verða ríkin að bregðast við nýjum aðstæðum. Geri þau það sameiginlega með öflugum bandamönnum skilar það meiri og betri árangri en ef hvert ríki gengur fram á eigin forsendum. Sundrung milli ríkjanna auðveldar einnig beitingu fjölþátta ógna til að espa þau hvert gegn öðru.

Kínversk stjórnvöld grípa nú til harðra aðgerða til að þrengja að frelsi og mannréttindum íbúa í Hong Kong. Nýju öryggislögin þar sættu gagnrýni í mannréttindaráði SÞ. Breski fulltrúinn lagði til að ákvæði laganna yrði endurskoðuð. Fulltrúi Kúba flutti gagntillögu um að ríki ættu ekki að blanda sér í innri mál fullvalda ríkja, Hong Kong væri hluti af Kína. Kúbu-tillagan hlaut stuðning 53 ríkja en breska tillagan 27 ríkja. Mannréttindaráðið er átakavöllur um túlkun á forsendum kínversku alræðisstjórnarinnar – og hún hefur betur.

Hér hafa norrænu ríkin sameiginlegt verk að vinna til að snúa vörn í sókn. Þetta verk er erfiðara en ella vegna afstöðu Bandaríkjastjórnar. Tómarúmið sem hún skilur eftir sig með brotthvarfi úr alþjóðastofnunum dregur dilk á eftir sér.