30.9.2021 9:42

Gildi frjálsrar farar í EES

Hér hefði aldrei verið unnt að endurræsa ferðaþjónustuna af þeim krafti sem við blasir án EES-aðildarinnar og frjálsrar farar.

Áður en Bretar sögðu skilið við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslunni sumarið 2016 var ein af meginröksemdum úrsagnarsinna að binda yrði enda á frjálst flæði vinnuafls milli meginlands Evrópu og Bretlandseyja. Þetta gekk eftir með úrsagnar- og fríverslunarsamningnum sem gerður var milli Breta og ESB. Þegar allt lá í láginni vegna heimsfaraldursins og Bretum var skipað að halda sig heima reyndi ekki á vinnuaflsskort á Bretlandseyjum. Annað er uppi á teningnum núna og er sýnilegasta dæmið um vandræðin við bensínstöðvar.

Nægar eldsneytisbirgðir eru til í landinu en það skortir ökumenn á olíubílana, frjálsa flæði vinnuaflsins er horfið og skriffinnska komin í staðinn.

Fuel-australia-pic-1Myndin er dæmigerð fyrir tómar bensínstöðvar víða í Bretlandi vegna skorts á ökumönnnum olíubíla.

Olof Scholz, kanslaraefni jafnaðarmanna í Þýskalandi, efndi til blaðamannafundar að kosningum loknum til að árétta að hann vildi verða næsti kanslari Þýskalands. Þá var hann spurður á ensku um afstöðu til bensínskortsins í Bretlandi. Hann svaraði á ensku og sagðist vona að Boris Johnson tækist að greiða úr afleiðingum úrsagnar Breta úr ESB, kanslaraefnið sagði:

„Frjáls för vinnuafls er hluti Evrópusambandsins og við lögðum hart að okkur við að sannfæra Breta um að segja ekki skilið við sambandið. Þeir ákváðu annað og ég vona að þeim takist að leysa vandann sem af því leiðir vegna þess að það er viðvarandi mikilvægt verkefni okkar allra að það takist og það verði gott samband milli ESB og Bretlands, þetta er hins vegar vandamál sem verður að leysa.“

Í breskum blöðum er bent á að í mörgum ESB-löndum sé sífelldur skortur á ökumönnum þungra flutningabíla, t.d. vanti um 124.000 ökumenn í Póllandi og 45.000 til 60.000 í Þýskalandi. Þar hafi tekist að útiloka skort á bensínstöðvum og á vörum í stórmörkuðum með því að nýta sér hagkvæmni frjálsrar farar vinnuafls frá öðrum ESB-löndum.

Hér á landi rugla menn gjarnan saman frjálsi för vegna EES-aðildarinnar og ferðafrelsi án vegabréfa vegna Schengen-aðildarinnar. Í COVID-ástandinu hefur skýrst betur en áður að innan Schengen geta ríki ákveðið innleiðingu alls kyns eftirlits á landamærum sínum séu til þess skýr og málefnaleg rök. Frjálsa förin samkvæmt EES-reglunum hefur á hinn bóginn ekki verið heft.

Það er ekki aðeins skortur á ökumönnum þungra flutningabíla sem veldur Bretum vandræðum þegar daglegt líf færist í fyrra horf heldur einnig skortur á starfsfólki í ferðaþjónustu og mörgum öðrum greinum.

Hér hefði aldrei verið unnt að endurræsa ferðaþjónustuna af þeim krafti sem við blasir án EES-aðildarinnar og frjálsrar farar. Þegar vandinn sækir að er mikilvægt að greina hvað reynist vel að honum loknum.

Það hefði flýtt fyrir því að við losnuðum undan oki faraldursins ef dreifing bóluefnis hér hefði ekki hangið á ESB-spýtunni og við hefðum t.d. getað fylgt Bretum sem voru skrefi á undan ESB við bólusetningar. Öll sú forsjálni bresku ríkisstjórnarinnar gleymist nú vegna vandræðanna í eftirleiknum.

Boris Johnson er með fangið fullt að vandamálum, hann getur þó huggað sig við að stjórnarandstaða Verkamannaflokksins er í molum.

Hér standa yfir viðræður um uppstokkun stjórnar. Þeir sem þar ræða saman ræða alvarleg og vandasöm mál en geta eins og Boris glaðst yfir stjórnarandstöðu í molum.