10.9.2021 9:18

Gerviloforð Pírata

Krafa Pírata er að viðmælendur um stjórnarsamstarf fallist á „nýju stjórnarskrána“. Geri þeir það ekki hafa þeir ekkert við þá að tala.

Dagmál er sjónvarpssamtal sem starfsmenn Morgunblaðsins eiga við gesti sína og áskrifendur blaðsins geta séð á vefsíðu þess. Nú fyrir kosningar er rætt við fulltrúa stjórnmálaflokkanna og birtist útdráttur samtalsins í blaðinu sjálfu sama dag og samtalið „fer í loftið“ á netinu.

Fimmtudaginn 9. september var rætt við Halldóru Mogensen, þingflokksformann Pírata. Flokkurinn hefur veitt henni umboð til að leiða stjórnarmyndunarviðræður að kosningum loknum.

222727_125357913Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, og blaðamennirnir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson í Dagmálum 9. september 2021.

Þegar útdrátturinn samtalsins er lesinn blasir við að allt er óvíst um hvernig framkvæma á útblásin loforðin.

Píratar lofa svonefndum borgaralaunum sem hvergi hefur tekist að útfæra á sjálfbæran hátt. Með þeim á að tryggja grunnframfærslu allra borgara landsins. Halldóra sagði kostnaðarmat ekki liggja fyrir, verkefnið væri hugsað til langs tíma og yrði að skoðast í heildarsamhengi grundvallarbreytinga á samfélaginu.

„[...] fyrsta skrefið gæti verið að hækka [persónuafslátt] um 25 til 30 þúsund krónur á mánuði. Að hækka um 25 þúsund krónur myndi kosta að mig minnir um 54 milljarða,“ sagði hún. Fjármagna mætti borgaralaunin með bættu skatteftirliti, hækkun veiðigjalda, þrepaskiptum fjármagnstekjuskatti auk lána, það er velta launagreiðslum nú á komandi kynslóðir. Þetta væri í lagi vegna þess að fjárfest væri í fólki. Kallaði hún þessa hugmynd um lántöku „fjárfestingu í framtíðarsamfélaginu“.

Halldóra sagði Pírata vilja tvöfalda veiðigjaldið á útgerðarfyrirtæki. Hún var minnt á að nú rynnu 33% af afkomu útgerðarfyrirtækjanna til greiðslu auðlindagjalds, hvort hún vildi hækka þennan sértæka skatt í 66%. Þingflokksformaðurinn svaraði:

„Ég get ekki svarað þessu algjörlega 100%. Þegar þú ert að fara út í svona díteila [svo!] með tölur þá er það eitthvað sem við þurfum að gefa út fyrir kosningar ásamt kostnaðinum.“

Halldóra gagnrýndi stjórnvöld fyrir að hafa varið gríðarlegu fjármagni við að halda ferðaþjónustunni á floti í faraldrinum. Nær hefði verið að beina fjármununum í nýjar atvinnugreinar. Virðist hún hafa litið alveg fram hjá því að í fyrra námu útflutningstekjur hugverkaiðnaðar um 158 milljörðum króna – 103% meira en árið 2013. Hlutdeild hugverkaiðnaðar í útflutningstekjum fór úr 7,4% í nær 16%.

Halldóra lýsir efasemdum um að opinberu fjármagni sé varið til að fjárfesta í framkvæmdum sem skapa ný störf. Skynsamlegra sé að nota ríkissjóð til að flytja fé úr vasa eins skattgreiðanda til annars með upptöku borgaralauna. Má sjá þarna samhljóm með stefnu Miðflokksins, að dreifa afgangi af rekstri ríkissjóðs milliliðalaust til borgaranna.

Setjist Halldóra að stjórnarmyndun fyrir hönd Pírata mun hún þó ekki setja neitt af því sem hér hefur verið sagt sem úrslitaskilyrði. Krafa hennar er að viðmælendurnir fallist á „nýju stjórnarskrána“. Geri þeir það ekki hefur hún ekkert við þá að tala.

Kjósendur geta falið Halldóru að mynda ríkisstjórn með fimm öðrum jaðarflokkum!