19.12.2017 10:29

Gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi

Við nýjar aðstæður þarf enn á ný að ræða til hlítar hvort lögregla hér hafi nægar heimildir til forvirkra aðgerða.


Myndin birtist á forsíðu Morgunblaðsins 19. desember fremst til vinstri er Snorri Olsen tollstjóri þá Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og síðan erlendir lögreglumenn.

Lögreglu- og tollayfirvöld skýrðu frá því á blaðamannafundi í gær (18. desember) að þriðjudaginn 12. desember sl. kl. sex árdegis, að íslenskum tíma, hefðu farið fram hér á landi, í Póllandi og Hollandi samræmdar aðgerðir vegna rannsóknar á grunsemdum um skipulagða brotastarfsemi sem stjórnað væri frá Íslandi. Vegna aðgerðanna komu til landsins og aðstoðuðu íslensk lögreglu- og tollyfirvöld tveir pólskir lögreglumenn og einn starfsmaður Europol. Þá var fulltrúi Íslands í aðgerðarstöð vegna aðgerðanna hjá Eurojust og íslenskur lögreglumaður aðstoðaði hollensk yfirvöld við húsleitir í Hollandi.

Í aðgerðunum hér á landi voru fimm menn handteknir og þrír þeirra úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þá voru eignir að verðmæti nærri 200 m.kr. haldlagðar og kyrrsettar. Samtals tóku þátt í aðgerðunum hér á landi yfir níutíu starfsmenn lögreglu og tollgæslu.

Í frétt á vefsíðu Europol segir að alls hafi átta verið handteknir í aðgerðinni, leitað hafi verið á 30 stöðum og ýmsar tegundir af fíkniefnum gerðar upptækar.

Eurojust er með höfuðstöðvar í Haag eins og Europol. Ritaði ég undir samning um aðild Íslands að Eurojust  2. desember 2005. Af Íslands hálfu annast embætti ríkissaksóknara samskiptin við Evrópsku réttaraðstoðina eins og þessi samvinna er nefnd á íslensku. Í samningnum felst m.a. að íslenskur sendisaksóknari vinni með stjórnarnefnd Evrópsku réttaraðstoðarinnar að málum sem upp kunna að koma og varða Ísland.

Í frétt Europol segir að undanfarna tólf mánuði hafi Eurojust og Europol skipulagt nokkra fundi til að skipuleggja samhliða rannsóknir á Íslandi, Hollandi og Póllandi gegn þessum skipulagða glæpahópi. Þá hafi Eurojust auðveldað samvinnu milli saksóknara og útgáfu evrópskra handtökuskipana auk þess lagt á ráðin um sameiginlegar aðgerðir.

Eins og af þessari stuttu lýsingu má ráða býr mikil og vel skipulögð vinna um margra mánaða skeið að baki aðgerðunum sem framkvæmdar voru fyrir viku. Ekkert af þessu hefði gengið eftir á þennan hátt stæði Ísland utan Schengen-samstarfsins. Pólverjarnir sem um ræðir hafa rétt til að vera hér vegna aðildar að EES-samstarfinu og án tillits til aðildar okkar að Schengen. Íslensk lögregluyfirvöld hefðu hins vegar ekki aðgang að evrópska lögreglu- og saksóknarasamstarfinu nema vegna Schengen-aðildarinnar.

Í Morgunblaðinu í dag minnir Karl Steinar Valsson, fulltrúi Íslands hjá Europol, á að greiningardeild ríkislögreglustjóra telur að tíu skipulagðir glæpahópar kunni að starfa hér á landi um þessar mundir. Karl Steinar bætir við að nauðsynlegt sé fyrir íslensk yfirvöld að hafa það í huga að brotastarfsemi, sem tengist Íslandi með einhverjum hætti, geti verið margvísleg. Hann segir: „Það sem við verðum að spyrja okkur er: Hvers vegna kusu þeir að vera með sína brotastarfsemi á Íslandi og hvernig ætlum við að bregðast við því?“

Þetta er lykilspurning. Svarið felst ekki einungis í fjölda lögreglumanna, fjárveitingum til löggæslu og tækjabúnaði. Það ræðst ekki síður að umgjörðinni, heimildunum sem lögreglan hefur til að rannsaka mál og grípa til aðgerða. Það var til dæmis ekki fyrr en í nóvember 2007 sem ég flutti frv. á alþingi til að fullnægt yrði alþjóðlegum skuldbindingum í baráttu gegn glæpastarfsemi og hryðjuverkum. Í framsöguræðunni vék ég að nýju ákvæði um upptöku eigna og sagði:

„Sem dæmi um tilvik sem falla undir þessa grein er þegar maður hefur gerst uppvís að meiri háttar fíkniefnainnflutningi. Við rannsókn málsins verður lögregla þess áskynja að brotamaður á verulegar eignir. Í slíkum tilvikum gæti brotamaður þurft að sýna fram á að eignirnar hafi ekki verið fengnar með ólögmætum ágóða.“

Ætli lögregla hafi ekki stuðst við þetta ákvæði þegar hún haldlagði nærri 200 m. kr. í því máli sem nú hefur verið upplýst.

Við nýjar aðstæður þarf enn á ný að ræða til hlítar hvort lögregla hér hafi nægar heimildir til forvirkra aðgerða.

Vegna þessa máls er mikils virði að reynst hafi unnt í marga mánuði að halda utan um fjölþjóðlega rannsókn með aðild margra stofnana og embætta á þann veg að trúnaður og traust leiði til markvissrar niðurstöðu. Það verður aðeins til að styrkja stöðu íslensku lögreglunnar í sífellt mikilvægara alþjóðasamstarfi á þessu sviði.