18.5.2021 10:21

Gegn aldursfordómum

Versta skammaryrðið hjá mörgum að lýsa höfundinn of gamlan, hann ætti bara að þegja. Ástæðulaust sé að taka mark á honum vegna aldurs.

Stundum bregðast menn reiðir við því á Facebook sem sagt er í pistlum hér á síðunni. Versta skammaryrðið hjá mörgum að lýsa höfundinn of gamlan, hann ætti bara að þegja. Ástæðulaust sé að taka mark á honum vegna aldurs.

Í Bandaríkjunum var útbreidd skoðun fram að framboði Ronald Reagans (69 ára) árið 1980 að svo gamla menn ætti ekki að kjósa sem forseta. Hann sat þó tvö kjörtímabil sem 40. forseti Bandaríkjanna. Reagan ýtti öllum umræðum um aldur sinn til hliðar í kosningabaráttunni við Walter Mondale sem bauð sig fram gegn honum í kosningum árið 1984.

Reagan og Mondale hittust tvisvar í kappræðum í sjónvarpi. Í fyrri umræðunum glansaði Mondale (56 ára) en Reagan þótti þreytulegur og stundum næstum utan gátta. Seinni umræðurnar tóku allt aðra stefnu. Reagan jarðaði allar vangaveltur um eigin aldur þegar hann sagði: „Ég vil að þið vitið að ég ætla ekki heldur að gera aldur að máli í þessari baráttu. Ég ætla ekki að nýta mér í pólitískum tilgangi æsku og reynsluleysi andstæðings míns.“ Walter Mondale andaðist 19. apríl 2021 93 ára.

6wfgqbv2gk_ReaganMondale1984Ronald Reagan segist ekki ætla að nýta sér æsku og reynsluleysi Walters Mondales, hlátur hans staðfestir að þarna náði Reagan undirtökunum.

Joe Biden er elstur þeirra sem hlotið hafa kosningu sem forseti Bandaríkjanna, tæplega 78 ára í nóvember 2020. Í kosningabaráttunni og eftir hana var látið að því liggja að Biden væri ekki með á nótunum. Nú í vikunni birtist á hinn bóginn löng grein í The New York Times um að starfsmenn forsetans ættu fullt í fangi með að mata hann á upplýsingum um smæstu atriði þegar hann mótaði sér skoðun á einstökum viðfangsefnum. Donald Trump er 74 og segist ætla að bjóða sig fram til forseta að nýju eftir tæp fjögur ár. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, er 81 árs.

Þegar litið er til frambjóðenda hér á landi og aldurs þeirra sést að hér ríkir allt önnur afstaða til frambjóðenda að þessu leyti en í Bandaríkjunum. Ástæðulaust er hins vegar að reyna að þagga niður í þeim sem láta í sér heyra þrátt fyrir aldur sinn.

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, skrifar grein í Morgunblaðið í dag (18. maí) undir fyrirsögninni: Vanvirðing við eldra fólk. Þar segir:

„Aldursfordómar eiga ekki að vera til. Lög um endurnýjun ökuskírteina eru eitt dæmi um fordóma; gömul lög þegar fólk um sjötugt var líkt og fólk er í dag um áttrætt. Við lifum lengur og getum æði margt mun lengur en foreldrar okkar. Danir hafa aflagt sambærilegar reglur og hér eru um endurnýjun ökuskírteina. Kostnaður fyrir samfélagið er mikill; læknisferð og ferð til sýslumanns, eina sem hefur batnað er að ekki þarf mynd í hvert sinn. Skorum á stjórnvöld að aflétta þessu úrelta kerfi. Æði margir vita ekki af því að það þarf að fá nýtt ökuskírteini 70 ára því enginn er að skoða svo gamalt próf, sem getur verið 53 ára gamalt. Var einhvern tíma á þessum 53 árum boðið upp á endurmenntun? Nei, en lítil tilraun var gerð fyrir nokkrum árum í ökuendurhæfingu með samgöngustofu. Það námskeið líkaði mjög vel og þarf að taka upp að nýju.“

Hér er hreyft máli sem snertir sífellt fleiri eldri borgara. Það verður spennandi að sjá hvort einhver ungra frambjóðenda styður þetta sjónarmið.