Geðþóttastjórn Sólveigar Önnu
Sólveig Anna vildi að eigin geðþótti kæmi í stað laga og reglna við brottvikningu skrifstofustjóra Eflingar til að rýma fyrir Viðari Þorsteinssyni.
Aðeins 10% af rúmlega 19.000 félagsmönnum Eflingar-stéttarfélags tóku þátt í stjórnarkjöri í mars 2018 þegar Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörin formaður. Stjórnarháttum Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns og Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra hennar var strax lýst sem harðstjórn. Þau hreinsuðu þá úr starfsliði Eflingar sem Sólveigu Önnu voru ekki að skapi. Þetta staðfesti hún á Facebook laugardaginn 21. september þegar hún spurði: „Átti ég að starfa með manni sem mig langaði ekkert að starfa með, vegna þess að hann leit svo á að hann einfaldlega ætti starf skrifstofustjóra Eflingar?“ Þannig rökstyður formaður stéttarfélagsins ákvörðun sína um að reka Þráin Hallgrímsson skrifstofustjóra fyrirvaralaust og ráða Viðar framkvæmdastjóra 27. apríl 2018.
Þau Sólveig Anna og Viðar ráku einnig Hörpu
Ólafsdóttur, hagfræðing Eflingar. Fjármálastjóra Eflingar og bókara var ýtt til
hliðar eftir að fjármálastjórinn vildi leita umboðs stjórnar til að greiða reikning
(1 milljón króna) frá Öldu Lóu Leifsdóttur, eiginkonu Gunnars Smára Egilssonar,
leiðtoga Sósíalistaflokks Íslands.
Hreinsanirnar innan Eflingar urðu til þess að fjórir fyrrverandi starfsmenn Eflingar leituðu til Láru V. Júlíusdóttur hrl. með ósk um að hún gætti réttar þeirra gagnvart stéttarfélaginu. Var sagt frá árangurslausum sáttatilraunum Láru V. á Stöð 2 föstudaginn 20. september. Haft er eftir henni að Sólveig Anna hafi
staðið rangt að málum. Hún hefði annaðhvort átt að veita starfsmanni áminningu vegna ófullnægjandi starfa og fylgja því ferli eftir eða að gera raunverulegar skipulagsbreytingar á skrifstofu Eflingar. Hvorugt var gert.
Allar tilraunir til sátta við Eflingu hafa runnið út í sandinn og Viðar Þorsteinsson lýsir undrun yfir að málið skuli ekki sótt gegn Eflingu fyrir dómstólum.
Leitað hefur verið til Starfsgreinasambandsins, VR og Alþýðusambandsins til að rétta hlut umbjóðenda Láru V. en ekkert hefur miðað. Hún segir:
„Það er ekki alveg það sama sem fólk predikar og hvað fólk iðkar og því miður að þá virðast þau sjónarmið sem verið er að ræða um að skorti á hjá öðrum atvinnurekendum ekkert síður eiga við á þessum stað, því miður.“
Á Facebook-síðu sinni sagði Sólveig Anna 21. september:
„Eða mátti ég mögulega líta svo á að ég sem nýr formaður Eflingar, næst stærsta verkalýðsfélags landsins, kjörin með ríflega 80% greiddra atkvæða, hefði eitthvað val, eitthvað frelsi, hefði sjálf eitthvað um það að segja hver væri minn nánasti og dags-daglegi samstarfsfélagi?“
Hún vildi sem sagt að eigin geðþótti kæmi í stað laga og reglna við brottvikningu skrifstofustjóra Eflingar til að rýma fyrir Viðari Þorsteinssyni. Þarna segist hún hafa fengið 80% greiddra atkvæða en lætur þess ógetið að innan við 10% félagsmanna tók þátt í kjörinu. Vegna alls þessa birtist þessi athugasemd á Facebook:
„Svala Jónsdóttir: Er það vaninn hjá verkalýðshreyfingunni, að ný stjórn reki fólk unnvörpum og ráði „sitt fólk“ í staðinn? Þætti verkalýðsforkólfum þessi vinnubrögð til fyrirmyndar hjá einkafyrirtæki eða opinberri stofnun? Er eðlilegt að stjórnendur „taki með sér“ næstráðendur án þess að gefa starfsfólki sem fyrir er hið minnsta tækifæri?“
Svarið við þessum spurningum er: Já, hjá Eflingu stéttarfélagi er þetta talið til fyrirmyndar.