10.6.2017 13:48

Galdurinn að ná til kjósenda

Í marga áratugi tókst Sjálfstæðisflokknum að hafa breiðan grunn í Reykjavík eins og 40% fylgi hans og þar yfir sýndi. Hvað varð til þess að flokkurinn tapaði þessum hæfileika í höfuðborginni?

 Uppgjörið innan breska Íhaldsflokksins er hafið eftir kosningarnar fimmtudaginn 8. júní. Tveir nánustu ráðgjafar og kosningastjórar Theresu May hafa sagt af sér. Annar þeirra tók fram að hann hefði ekki sýnt nægilega aðgæslu við útfærslu á tillögum um gjaldtöku sem síðar var nefnd „elliglapa-skatturinn“ og lagðist illa í aldraða kjósendur þar sem Íhaldsflokkurinn nýtur að jafnaði mikils stuðnings.

Norman Tebbitt sem sat á sínum tíma í stjórn Margaret Thatcher sakar ráðgjafana um að elta vinstri sinnuð viðhorf Verkamannaflokksins undir stjórn Jeremys Corbyns í leit að „miðjunni“. Þetta hafi lagst illa í gamalgróna kjósendur Íhaldsflokksins, ekki hafi verið höfðað til þeirra. Þetta hefði frú Thatcher heldur aldrei gert. Hún hefði ekki ljáð andstæðingnum trúverðugleika á þennan hátt heldur reynt að ná í atkvæði frá honum á eigin forsendum.

Það er mikill galdur í stjórnmálum að höfða í senn til þeirra sem muna tímana tvenna og vilja ekki sleppa því sem þeim þótti gott í fortíðinni og hinna sem telja samtímann og oft snöggsoðnar framtíðarlausnir skipta mestu. Að mynda þarna jafnvægi og ná jafnframt að breikka hóp stuðningsmanna sinna með því að höfða á eigin forsendum til hefðbundins kjósendahóps annarra flokka er lykillinn að velgengni í kosningum.

Í marga áratugi tókst Sjálfstæðisflokknum þetta í Reykjavík eins og 40% fylgi hans og þar yfir sýndi. Hvað varð til þess að flokkurinn tapaði þessum hæfileika í höfuðborginni? Nú er rétti tíminn að brjóta það til mergjar til undirbúnings sveitarstjórnakosningunum vorið 2018.

Nærtæk skýring er að borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna höfði ekki til kjósenda á eigin forsendum heldur elti andstæðinga sína. Í stjórnmálum gildir sama lögmál og annars staðar: Standi valið á milli þess sem er ekta og eftirlíkingar hallast menn almennt að því að kjósa ekki eftirlíkinguna.

Með því að elta vinstri menn i borgarstjórninni hafa Sjálfstæðismenn ljáð málstað þeirra trúverðugleika. 

Augljóst er að Viðreisn býr sig undir að taka stöðu Samfylkingarinnar í Reykjavík. Þingi hafði ekki fyrr verið frestað en tveir ráðherrar Viðreisnar og borgarstjórinn skrifuðu undir samning á ráðstöfun á ríkislóðum í borginni til borgarstjóra svo að hann gæti enn einu sinni slegið um sig með glærum um fjölgun íbúða í borginni. 

Þorsteinn Víglundsson ráðherra Viðreisnar skipaði Árna Pál Árnason, fyrrv. formann Samfylkingarinnar, formann stjórnar Tryggingastofnunar ríkisins. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, réð Ólafíu Björk Rafnsdóttur, fyrrv. formann VR, gamalreyndan kosningastjóra Ólafs Ragnars og á vettvangi Samfylkingarinnar, sem aðstoðarmann sinn.

Það er vissulega ein leið til að skapa sér fótfestu í stjórnmálum að fara í spor þeirra sem hafa orðið að engu. Viðreisn hefur kosið þá leið.