Galdrar Hólmavíkur
Við lögðum meðal annars leið okkar í Galdrasafnið í hjarta Hólmavíkur þar sem mikinn fróðleik er að finna um galdra á Íslandi.
Yfir Þröskulda er skotfæri milli Reykhóla og Hólmavíkur um hásumar. Það var að vísu ekki mjög sumarlegt að aka leiðina í gær (30. júní) í þoku og 5 gráðu hita.
Hólmavíkurkirkja.
Hólmavíkurkirkja stendur á Brennuhól í miðju þorpinu á Hólmavík við Steingrímsfjörð á Ströndum. Kirkjan er byggð eftir teikningu Gunnars Ólafssonar arkitekts og er rúmir 200 fermetrar að stærð, steinsteypt með háu valmaþaki. Hún var vígð á uppstigningardag árið 1968 og hafði þá verið rúman áratug í byggingu.
Við lögðum meðal annars leið okkar í Galdrasafnið í hjarta Hólmavíkur þar sem mikinn fróðleik er að finna um galdra á Íslandi auk þess sem unnt er að fá einkar bragðgóða sjávarréttarsúpu um hádegið.
Þá kynntum við okkur einnig starfsemi Galdurs brugghúss sem er skammt frá Galdrasafninu. Brugghúsið framleiddi fyrsta bjórinn fyrir jólin í fyrra en dafnar vel og þar er nú verið að smíða stofu til að taka á móti gestum. Vegna nýrra laga er nú unnt að kaupa bjór beint frá bruggara. Bjórinn Galdur og aðrar tegundir frá brugghúsinu er víða til sölu.
Við eldhúsborðið í Húsavík, Hlédís ræðir við Mathhías og Hafdísi.
Við heimsóttum fjárbændurna Hafdísi og Matthías í Húsavík sem fullvinna hluta af sláturfé sínu og anna ekki eftirspurn.
Samtalið í húsi Þróunarsetursins á Hólmavík.
Þá efndum við til samtals við heimamenn í húsakynnum Þróunarsetursins á Hólmavík. Þar var rætt um sauðfjárrækt, ræktun og vinnslu á þata og kræklingum auk þess var okkur sagt frá. Sauðfjársetrinu á Ströndum en á vefsíðu þess má meðal annars lesa:
„Það eru í rauninni til óteljandi hliðar á sauðfjárbúskap. Sauðféð sjálft, störf bóndans, lífið í sveitinni, árstíðabundin verkefni og síðast en ekki síst sýn hverrar og einnar manneskju á sauðkindina og búskapinn. Þannig er endalaust hægt að sjá nýja vinkla á sauðfjárbúskapnum.
- Á Ströndum eru fén svo feit
- að fæstir síður eta,
- þeir sem eru úr annarri sveit,
- en innfæddir það geta.
[Úr búnaðarbálki Eggerts Ólafssonar]
Líf og afkoma bænda á Ströndum í gegnum aldirnar hefur að miklu leyti byggst á sauðfjárbúskap. Hlunnindi og árstíðabundin sjósókn hafa líka skipt verulegu máli og meira eftir því sem norðar dregur í sýslunni.
Fé af Ströndum hefur lengi verið með því vænsta og best gerða á landinu. Mikil áhersla á ræktunarstarf og góð beitarlönd í héraðinu hafa skilað árangri sem Strandamenn geta verið stoltir af.“
Er þetta góð áminning til okkar sem förum nú hér um og kynnum okkur hvað helst má verða til að stuðla að byggðafestu þar sem sauðfjárbúskapur á undir högg að sækja.