26.1.2022 10:07

Gagnaskortur Pírata

Þetta er mál er miklu stærra en Píratar láta með því að ræða það sem skort á gögnum undir dagskrárliðnum „fundarstjórn forseta“. Það er feluleikur fyrir óvinsælan málstað.

Útlendingastofnun birti frétt á vefsíðu sinni mánudaginn 24. janúar 2022 þar sem sagði að á liðnu ári hefði hún fengið 871 umsókn um alþjóðlega vernd (það er frá hælisleitendum). Það væru þriðjungi fleiri umsóknir en árið 2020 þegar umsóknir voru 654.

Þriðjudaginn 25. janúar fóru fram umræður á alþingi undir dagskrárliðnum „fundarstjórn forseta“ þar sem þingmenn Pírata höfðu forgöngu um að gagnrýna útlendingastofnun fyrir að afhenda þingnefnd ekki gögn sem hún þyrfti til að taka ákvörðun umsókna um ríkisborgararétt. Hér gera lög ráð fyrir að samhliða því sem ákveðið er af framkvæmdavaldinu að veita ríkisborgararétt sé hjáleið um alþingi við veitingu réttarins. Þessi leið um þingið hefur jafnan lotið að sérgreindum tilvikum, verið öryggisventill.

944626Í 6. gr. núgildandi laga um íslenskan ríkisborgararétt segir að alþingi veiti ríkisborgararétt með lögum. Áður en umsókn um ríkisborgararétt er lögð fyrir þingið fær útlendingastofnun um hana umsögn lögreglustjóra á dvalarstað auk þess sem útlendingastofnun gefur umsögn um umsóknina. Af ræðum þingmanna má skilja að þeir séu ekki ánægðir með framkvæmd þessa ákvæðis laganna. Var talað um að ekki væri fylgt „viðurkenndu verklagi“ af stofnuninni án þess að það væri nánar skýrt. Þá var gefið til kynna að dómsmálaráðherra hefði gefið fyrirmæli um nýtt verklag.

Þegar rýnt er í umræðurnar blasir við að fyrir Pírötum vakir að skapa opna hjáleið fram hjá útlendingastofnun og gera veitingu alþingis á ríkisborgararétti að samhliða reglu. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sagði aldrei fleira fólk hafa verið á flótta, þess vegna hefðu aldrei fleiri þurft að sækja beint til alþingis um ríkisborgararétt „fram hjá þeim þröngu skilyrðum sem lög um útlendinga heimila“.

Jóhann Helgi Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði þetta hluta af stærra vandamáli, útlendingastofnun hagaði sér stundum „eins og einhvers konar ríki í ríkinu“. Hún teldi sig „einhvern veginn hafna yfir lög og reglur og þá ferla sem hér hafa tíðkast og eru lögbundnir“.

Tekið skal undir orð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem sagði í umræðunum um fundarstjórn forseta að stæði vilji alþingis til þess „að rýmka mjög verulega skilyrði þess að fá ríkisborgararétt á Íslandi“ ætti að breyta lögum en „ekki vera með upphrópanir hér á þingi um þau mál sem fengið hafa neikvæða afgreiðslu réttrar stofnunar á grundvelli þeirra laga sem alþingi sjálft setti, að allir neitanirnar þurfi að koma til þingsins vegna þess að þingið ætli að fara aftur yfir það hvers vegna málin hafa ekki fengið afgreiðslu“.

Þingmenn Samfylkingar, VG og Viðreisnar gengu í lið með Pírötum undir því yfirskini að alþingismenn fengju ekki nauðsynleg gögn frá útlendingastofnun og fordæmdu það. Sá málflutningur var í raun ekki annað en yfirvarp að baki býr vilji til að brjóta stjórnsýslureglur á bak aftur, ýta framkvæmdavaldinu til hliðar og gera afgreiðslu hælisumsókna að pólitísku viðfangsefni á alþingi.

Þetta er mál er miklu stærra en Píratar láta með því að ræða það sem skort á gögnum undir dagskrárliðnum „fundarstjórn forseta“. Það er feluleikur fyrir óvinsælan málstað.