18.11.2021 10:13

Fyrst veiran svo ASÍ-hótanir

Sé þjóðin orðin langþreytt á að ekki tekst að kveða niður veiruna er þreytan örugglega orðin enn meiri vegna hótana um hörku og átök úr herbúðum ASÍ.

Stýrivextir hækka um 0,5 prósentur samkvæmt ákvörðun seðlabankans frá 17. nóvember og verða meginvextir hans því 2%. Bankinn spáir rúmlega 5% hagvexti á árinu 2022.

1271426Seðlabanki Íslands (mbl.is).

Þegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri kynnti vaxtahækkunina fór hann ekki í launkofa með gagnrýni sína á ákvæðin í gildandi kjarasamningum sem leiða að óbreyttu til umfram launahækkana vegna hagvaxtarins sem nú mælist. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Ásgeiri:

„Þegar samið var um þennan hagvaxtarauka þá hefði í upphafi átt endinn að skoða. Ef þú ert bara að miða við hagvöxt einan og sér, því nú fór hagkerfið í mikinn samdrátt sóttarárið mikla, og svo kemur hagkerfið til baka og þá kemur hagvöxtur sem leiðir til meiri launahækkana, án þess að landsframleiðsla hafi vaxið því hún er enn minni en hún var fyrir faraldur. Hagkerfið er að fá á sig launahækkanir sem eru ekki studdar af aukinni framleiðslu. Það kemur inn í verðbólguna núna. Þá er komin þörf á að við ítrekum það með orðum og gjörðum að okkur er full alvara að halda verðbólgu í skefjum.“

Þá segir í blaðinu að seðlabankastjóri hafi vísað „heitingum verkalýðsforystunnar til föðurhúsanna“. Ótækt væri að gagnrýna seðlabankann fyrir að bregðast við hækkandi verðlagi með vaxtahækkunum, hótanir um nýjar launakröfur vegna vaxtahækkana væru „öfugmælavísur“ sem mætti líkja við fullyrðingar um að „vatnið rynni upp á við“. Aðilar vinnumarkaðarins ættu að hafa skilning á að seðlabankinn varðveitti verðstöðugleika og kaupmátt launa og það myndi hann gera.

Þarna talar Ásgeir Jónsson tæpitungulaust og lýsir hörðum efnahagslegum staðreyndum sem verður að virða vilji menn að skynsemi ráði við hagstjórnina. Allt fór þetta þó öfugt ofan í Drífu Snædal, forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ),. sem hótaði hörku í hádegisfréttum ríkisútvarpsins þennan sama dag, 17. nóvember.

Hún sagði að seðlabankinn hefði ákveðið „að hafa af launafólki svona eins og eina umsamda launahækkun á kjarasamningstímabilinu“. Það væri „mjög alvarlegt mál“. Drífa Snædal sagði einnig „...þessar bröttu vaxtahækkanir sem við erum að sjá núna munu að sjálfsögðu kalla á það að við förum með töluvert meiri hörku inn í kjarasamningana næstu en við var búist“.

Friðrik Jónsson, formaður Bandalags háskólamanna (BHM), var ekki eins herskár og Drífa en sagði um vaxtahækkunina: „Þetta er ekki jákvætt inn í kjaraumhverfið.“

Sé þjóðin orðin langþreytt á að ekki tekst að kveða niður veiruna er þreytan örugglega orðin enn meiri vegna hótana um hörku og átök úr herbúðum ASÍ.

Veiran fer ótroðnar slóðir með því að taka á sig nýjar myndir. Drífa Snædal sér hins vegar aðeins hótana- og átakaleiðina hvað sem á dynur. Átakahugarfar nýrra verkalýðsforingja birtist á sorglegan hátt í fréttum af Sólveigu Önnu Jónsdóttur sem getur ekki á sér setið og sparkar í þá sem fylla tóm sæti hennar í ASÍ eftir að hún hrökklaðist á brott vegna mannvonsku í garð starfsfólks Eflingar. Hvernig væri að líta í eigin barm í stað þess að hóta stöðugt öðrum?