13.3.2025 10:27

Fyrirvarastefna forseta Íslands

Í ljósi alls þessa er skrýtið þegar sagt er að vegna herleysis eigi Íslendingar ekki að leggja fé í sameiginlegan sjóð bandamanna sinna sem komið er á fót til að standa við bakið á Úkraínumönnum.

Eðli málsins samkvæmt er ekki gert ráð fyrir útgjöldum til hermála í fjárlögum íslenska ríkisins. Hér hafa ekki verið sett nein lög um hernaðarlega starfsemi ríkisins. Á hinn bóginn hafa verið ákveðin útgjöld til borgaralegrar aðildar að verkefnum tengdum hernaði og má þar nefna þátttöku í friðargæslu t.d. í fyrrum Júgóslavíu og Afganistan.

Um langt árabil átti Ísland ekki aðild að mannvirkjasjóði NATO sem kemur að fjármögnun hernaðarmannvirkja í samræmi við varnaráætlanir bandalagsins. Nú greiðir íslenska ríkið í þann sjóð sem stendur meðal annars undir kostnaði við mannvirkjagerð í þágu NATO á Keflavíkurflugvelli. Þar er einnig staðið að stórframkvæmdum fyrir fé af bandarískum fjárlögum.

Í ljósi alls þessa er skrýtið þegar sagt er að vegna herleysis eigi Íslendingar ekki að leggja fé í sameiginlegan sjóð bandamanna sinna sem komið er á fót til að standa við bakið á Úkraínumönnum þegar þeir verjast innrásarher Rússa. Ákvörðun um þessi útgjöld ræðst ekki af því hvort við séum herlaus eða ekki heldur hvort við viljum eiga samstöðu með Evrópuþjóð og eigin bandamönnum.

Screenshot-2025-03-13-at-10.25.53

Í Morgunblaðinu í dag (13. mars) er spurning um hvort styðja eigi áfram við Úkraínumenn lögð fyrir utanríkisráðherra, fulltrúa allra þingflokka og forseta Íslands.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra er afdráttarlaus. Hún og forsætisráðherra hafi á fundum í Úkraínu lýst Íslendinga reiðubúna til „að halda áfram stuðningi við varnir Úkraínu, en líka ekki síður að taka á okkur hlutverk þegar fram í sækir við að byggja upp Úkraínu“.

Af svörum fulltrúa þingflokkanna má ráða að þessi stefna njóti stuðnings þeirra allra. Víðir Reynisson, Samfylkingu, orðar þetta svona: „Framlög okkar þurfa alltaf að endurspegla þá þörf sem viðtökuríkið skilgreinir og við getum stutt við. Líkt og við höfum gert í tilfelli Úkraínu.“

Þetta er kjarni málsins. Það er til lítils að veita eða bjóða aðstoð sem kemur ekki að neinu gagni. „Við eigum ekki að sjá ofsjónum yfir því, enda eru varnir Úkraínu líka varnir Vesturlanda,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, Sjálfstæðisflokki.

Morgunblaðið rifjar upp að í aðdraganda forsetakjörs á liðnu ári hafi Halla Tómasdóttir vikið að stuðningi Íslands við Úkraínuher og talið hann mjög varhugaverðan.

Nú áréttar Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, í blaðinu að Ísland sé friðsæl og herlaus þjóð. Forseti hafi verið upplýstur um viðbótarframlag til varnartengds stuðnings við Úkraínu „sem tengist loforði fyrri ríkisstjórnar“. Forseti setji sig ekki á móti stefnu alþingis og ríkisstjórnar. Hún muni „hér eftir sem hingað til tala fyrir friði og mannúð og öðrum grunngildum þjóðarinnar, bæði innan lands og utan“.

Það er annar tónn í orðum forseta Íslands en einörðum stuðningi stjórnmálamanna við Úkraínu. Það er óútskýrt hvers vegna forsetinn kýs að hafa þessa fyrirvarastefnu og gefa jafnvel til kynna að ríkisstjórninni sé nauðugur einn kostur í þessu máli vegna loforða fyrri ríkisstjórnar. Orð utanríkisráðherra sýna að svo er alls ekki.