18.6.2019 14:41

Fyrirsláttur vegna málshöfðunar

Norska þingið sá enga ástæðu til að gera þriðja orkupakkanum svo hátt undir höfði að setja hann á borð með EES-aðildinni eða aðildinni að EES-fjármálastofnunum.

Eitt af því sem fram hefur komið í umræðum um þriðja orkupakkann (O3) er að ekki sé unnt að afgreiða hann á alþingi vegna óvissu um hvort hann standist norsku stjórnarskrána.

Miðflokksmenn segja að vegna þessa verði að gera hlé á meðferð málsins á alþingi og bíða eftir niðurstöðu í máli sem andstæðingar O3 í Noregi hafa höfðað til að fá úr því skorið af dómstólum hvort norska stjórnarskráin hafi verið brotin.

Þarna er um það að ræða að andstæðingar O3 í Noregi sem hrundu óttaumræðunum um pakkann af stað hér segja að nota hefði aðra grein norsku stjórnarskrárinnar við afgreiðslu hans en gert var 22. mars 2018. Leita hefði átt eftir auknum meirihluta þingmanna við samþykkt hans.

Tvisvar sinnum hefur þessari grein norsku stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta verið beitt, þegar aðildin að EES-samningnum var samþykkt og þegar aðildin að EES-fjármálafagstofnunum var samþykkt. Aðildin að þeim stofnunum sigldi umræðulítið í gegnum alþingi eftir að fundist hafði viðunandi lausn á aðild að þeim fyrir ESA og EES/EFTA-ríkin.

Stortinget-2014-1Stórþinghúsið í Osló.

Norska þingið sá enga ástæðu til að gera þriðja orkupakkanum svo hátt undir höfði að setja hann á borð með EES-aðildinni eða aðildinni að EES-fjármálastofnunum. Þótt það hefði verið gert naut O3 stuðnings nægilega margra norskra þingmanna.

Talið er líklegt að máli O3-andstæðinga í Noregi verði vísað frá dómstólum, ef ekki verði dæmt á þann veg að samþykki stórþingsins brjóti ekki í bága við stjórnarskrána.

Að fiska í gruggugu vatni með lögfræðinga sér við hlið einkennir málflutning O3-andstæðinga í Noregi og á Íslandi.

Nú hefur hlutur lögfræðinganna sem taka þátt í þessum veiðum á Íslandi vænkast af því að enginn annar en sjálfur Jón Þór Ólafsson, þingmaður pírata, hefur gengið í lið með þeim og segir að stjórnarskráin eigi að njóta vafans sem hann fann í ófullbúnu lögfræðiáliti Stefáns Más Stefánsson og Friðriks Árna Friðrikssonar. Fyrir bragðið er lýst yfir trausti á skarpskyggni Jóns Þórs í leiðara Morgunblaðsins.