29.1.2018 12:10

Fyrirgreiðslugjald í skjóli borgarlínu

Í Reykjavík og ef til vill í öðrum sveitarfélögum hefur innviðagjald verið sett í samninga við verktaka án þess að fyrir því sé nokkur lagaheimild.

Nýlega var skýrt frá því í Morgunblaðinu að Reykjavíkurborg innheimti sem svarar 1,5 milljónum króna í innviðagjald á hverja 100 fermetra í fyrirhuguðum íbúðum í Furugerði við Bústaðaveg. Gjaldið kemur til viðbótar gatnagerðargjaldi. Það nemur samtals um 50 milljónum króna. 

Óli Örn Eiríksson, deildarstjóri atvinnuþróunar hjá skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar hjá borginni, segir innviðagjaldið taka „mið af aðstæðum hverju sinni. Stundum eru byggingarlóðirnar við hliðina á fyrirhugaðri borgarlínu og stundum koma aðilar með samfélagslega innviði til viðbótar við samgönguinnviði. Það er að segja samfélagslega innviði í skilningnum félagslegt húsnæði eða leiguíbúðir. Gjaldið er því mismunandi eftir reitum.“ 

Varðandi innviðagjaldið í Furugerðinu bendir Óli Örn á að börnum kunni að fjölga með fleiri íbúðum og fylgi því kostnaður. Borgin sé að meta húsnæðisþörf Knattspyrnufélagsins Víkings í Víkinni. Það komi senn á fjárhagsáætlun. 

Það sem segir hér að ofan er tekið af mbl.is og verða lokaorðin varla skilin á annan veg en þann að tengsl séu á milli álagningar innviðagjaldsins og húsnæðisþarfar Víkings vegna hugsanlegrar fjölgunar barna í Furugerði!  

Rétt er að geta þess að lóðin við Furugerði snýr út að Bústaðavegi og var þarna gróðrastöð. Nágrannar lóðarinnar mótmæla fyrirhuguðum byggingum á henni eins og algengt er þegar ráðist er í þéttingu byggðar. Telja þeir vegið að hagsmunum sínum með framkvæmdunum. 

The New York Times birti þessa mynd af lestrastöð í New York með frétt sinni um deilur vegna innviðagjalds í borginni,

Meira en öld er liðin frá því að tókst að fjármagna fyrstu jarðlestina í New York. Þar hafa aldrei verið lögð nein innviðagjöld á þá sem búa nálægt lestarstöðvum en nú vill demókratinn Andrew M. Cuomo, ríkisstjóri New York-ríkis, að hugað verði að innviðagjaldtöku til að afla fjár til viðhalds lestarkerfinu sem hrakar jafnt og þétt samhliða hagvexti í stórborginni. Útreikningar sérfróðra aðila sýna að verð á verslunarhúsnæði nálægt lestarstöð er hærra en á húsnæði í meiri fjarlægð frá henni. Að ná hluta af þessari verðmætaaukningu með opinberri gjaldtöku er kallað value capture á ensku. Ríkisstjórinn vill að Metropolitan Transportation Authority í New York, það er stjórnendur samgangna, fái heimild til að skilgreina sérstök þjónustusvæði og innheimta þar gjald. 

Í The New York Times segir í dag (29. janúar) að hugmynd ríkisstjórans sé mjög illa séð í ráðhúsi New York og sé í raun ekki annað en nýtt átakamál milli hans og demókratans Bills de Basios, borgarstjóra New York.  Blaðið segir einnig að áform ríkisstjórans nái ekki fram að ganga nema eftir umræður og setningu laga á þingi New York-ríkis. 

Í Reykjavík og ef til vill í öðrum sveitarfélögum hefur innviðagjald verið sett í samninga við verktaka án þess að fyrir því sé nokkur lagaheimild. Eins og að ofan greinir eru rökin að baki gjaldtökunni háð duttlungum. Að opinber gjaldtaka þrífist á slíkum forsendum er undarlegt svo að ekki sé meira sagt. Úr því að ástæður fyrir gjaldtökunni virðast tilbúnar á þá ekki frekar að kalla það fyrirgreiðslugjald? 

Þegar rætt er um innviðagjald í New York vegna jarðlestakerfisins sækja menn rök til mikillar reynslu og mælinga. Hér láta menn bjóða sér að vera krafnir um innviðagjald vegna borgarlínu sem enginn hvort kemur eða í hvaða mynd. Féð rennur ekki heldur til hennar, þótt hún sé notuð sem yfirvarp, heldur í hít ofurskuldsetnu borgarinnar.