Fyrir kraft heilags anda
Í Postulasögunni segir „ótti kom yfir sérhverja sál“ á fæðingardegi kirkjunnar Síðan hefur hvorki ótti né efi grandað henni fyrir kraft heilags anda.
Í Postulasögunni segir að á hvítasunnudegi, 50 dögum eftir páska, hafi allir lærisveinar Jesús Krists komið saman á einum stað; „og skyndilega varð gnýr af himni, eins og aðdynjanda sterkviðris, og fylti alt húsið, sem þeir sátu í; og þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á einn og sérhvern þeirra; og þeir urðu allir fullir af heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla“.
Pétur postuli tók til máls og sagði að þeir sem töluðu tungum væru ekki drukknir eins og ætla mætti „því að nú er þriðja stund dags“. Heldur væri þetta til marks um að Guð hefði vakið Jesúm frá dauðum, eins og þeir gætu allir vottað, og hann hefði nú „af föðurnum fengið fyrirheitið um heilagan anda, hefir hann úthelt honum, sem þér sjáið og heyrið.“
Þá segir í Postulasögunni að þeir sem þá meðtóku orð Péturs hafi verið skírðir og að á þeim degi hafi hér um bil þrjú þúsund sálir bæst í hópinn. „Og þeir héldu sér stöðuglega við kenningu postulanna og samfélagið og brotning brauðsins og bænirnar,“ segir og síðan:
„En ótti kom yfir sérhverja sál, og mörg undur og tákn gjörðust af postulunum. En allir þeir sem trúðu voru saman og höfðu alt sameiginlegt, og þeir seldu eignir sínar og fjármuni, og skiftu því meðal allra, eftir því sem hver hafði þörf til. Og daglega héldu þeir sér með einum huga stöðugt í helgidóminum og brutu brauð í heimahúsum, og neyttu fæðu með fögnuði og einfaldleik hjartans, og lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum lýð. En drottinn bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.“
Heilagur andi er innblásturinn að baki kristnu heimstrúarbrögðunum, kirkjunni sem stofnuð var á hvítasunnudag.
Sr. Guðrún Karls Helgudóttir var nýlega kjörinn biskup Íslands. Kolbrún Bergþórsdóttir ræðir við hana í hvítasunnublaði Morgunblaðsins (útg. 18. maí) og segir:
„Margt er kirkjunni mótdrægt, það dregur úr trú og fólk treystir ekki lengur stofnunum í sama mæli og áður. Sem biskup vilt þú örugglega gera þitt til að laga þetta en kannski er það ómögulegt.“
Biskupinn nýkjörni segist ekki ganga með þá tálsýn að kirkjan verði aftur trúfélag 90% Íslendinga. Hafa ber í huga að þarna ræðir biskup um þjóðkirkjuna. Við hlið hennar starfa aðrar kristnar kirkjudeildir.
Biskup segir réttilega að samfélagsgerðin sé önnur nú en þegar sú einsleitni ríkti að allir Íslendingar aðhylltust lútherstrúna sem þjóðkirkjan boðar. Kirkjan á hins vegar mun meira inni hjá þjóðinni en tölur um skráðan fjölda í þjóðkirkjunni segja. Heilagur andi er enn að störfum og sameinar krikjudeildir.
Í samtalinu segir Sr. Guðrún Karls Helgudóttir: „Ég segi: Guði sé lof að ég efast stundum vegna þess að ég held að efi sé ein forsenda trúarþroskans. Trúin og efinn eru systkin og í raun hluti af trúarlífi hverrar hugsandi manneskju sem veltir trú fyrir sér.“
Í Postulasögunni segir „ótti kom yfir sérhverja sál“ á fæðingardegi kirkjunnar Síðan hefur hvorki ótti né efi grandað henni fyrir kraft heilags anda.