2.6.2021 8:49

Fundaferð hafin um landbúnaðarstefnu

„Ræktum Ísland er því grundvallarumræðuskjal um þau kaflaskil sem þurfa að verða í nálgun okkar á starfa umhverfi íslensks landbúnaðar.“

Fjölmenni var á fyrsta fundi af 10 sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, boðar til um land allt fyrri hluta júní til að ræða umræðuskjalið Ræktum Ísland! Auk ráðherrans höfum við Hlédís H. Sveinsdóttir, höfundar skjalsins, framsögu og síðan eru umræður um skjalið.

Fundurinn að kvöldi þriðjudags 1. júní var í landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri í Borgarfirði. Fyrir utan okkur þrjú tóku margir til máls og getum við vel við undirtektirnar unað.

IMG_3509Séð yfir fundarsalinn á Hvanneyri að kvöldi 1. júní. Eins og sjá má var kröfunni um grímuskyldu og fjarlægð stranglega fylgt.

Meðal þeirra sem sögðu álit sitt á skjalinu var Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands. Hann í nýlegri grein á vefsíðunni feykir.is í Skagafirði sagði Haraldur meðal annars:

„Íslenskur landbúnaður er hluti af alþjóðlegu umhverfi. Þýðing hans er ekki minni en hann hefur alltaf verið fyrir þjóðina. Heldur er hann nú líklega mikilvægari en nokkurn tímann fyrr. Þar mætti nefna marga þætti – og nægir kannski helst að nefna grundvallarhlutverk hans en það er fyrst og fremst að vera uppruni framboðs af heilnæmum matvælum. Ræktun af ábyrgð og þekkingu.

Á síðustu árum hefur orðið grundvallarbreyting í dreifðum byggðum í atvinnuháttum. Enn eru nýjar áskoranir. Okkur tókst, umfram aðrar þjóðir að skapa þann grundvöll með nútíma fjarskiptatækni. Í nýlegri rannsókn er staðfest að ljósleiðaravæðing sveitanna hefur mikla efnahagslega þýðingu og er hin nýja kjölfesta – og fólki fjölgar á ný í sveitum. Hver hefði trúað því fyrir örfáum árum síðan? Því þarf að fylgja eftir með því að stækka og efla íslenskan landbúnað.“

Og í greinarlok segir Haraldur:

„Landbúnaður er hluti þjóðaröryggis. Landbúnaður er grunnur að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og fullveldi. Ræktum Ísland er því grundvallarumræðuskjal um þau kaflaskil sem þurfa að verða í nálgun okkar á starfa umhverfi íslensks landbúnaðar.“

Það er mikils virði að fá þau hvatningarorð sem féllu á fundinum á Hvanneyri í veganesti í fundaferðina.