18.7.2018 10:04

Fullveldisfundur alþingis á Þingvöllum

Fyrir því eru skýr rök að 100 ára afmælis fullveldisins sé minnst með hátíðarfundi alþingis á Þingvöllum.

Alþingi kemur saman til fundar á Þingvöllum í dag (18. júlí) til að minnast þess að 100 ár eru liðin frá því að samninganefnd Íslendinga og Dana ritaði undir sambandslagasamninginn sem tók gildi 1. desember 1918 og tryggði Íslendingumn fullveldi.

1060983Hari tók þess mynd sem birtist á mbl.is og sýnir þingpallinn sem hefur verið reistur fyrir neðan Lögberg á Þingvöllum vegna hátíðarfundar alþingis þar í dag, 18. júlí.

Fyrir því eru skýr rök að þessa merka viðburðar sé minnst með hátíðarfundi alþingis á Þingvöllum. Alþingi sjálft átti meiri beinan þátt í gerð þessa samnings en felstra annarra síðan og þá sérstaklega eftir að Íslendingar tóku utanríkismálin í eigin hendur og komu á fót utanríkisráðuneyti til að annast samskipti sín við önnur ríki.

Í bókinni Fullveldi í 99 ár, safni ritgerða til heiðurs dr. Davíð Þór Björgvinssyni sextugum, er að finna grein eftir Guðmund Hálfdanarson prófessor um það þegar fullveldið „hélt innreið í íslenska stjórnmálaumræðu“. Í niðurlagsorðum hennar segir:

„Fullveldið kom nokkuð óvænt inn í opinbera umræðu á Íslandi á fyrsta áratug síðustu aldar og varð svo að segja umsvifalaust að hinu heilaga markmiði stjórnmálanna. Sú staðreynd að ekki var minnst á íslenskt fullveldi í uppkasti að nýjum sambandslögum sem dönsk-íslensk nefnd lauk við að semja vorið 1907 varð síðan til þess að þvi var hafnað í alþingiskosningum ári síðar. Aðdráttarafl þessa stjórnskipulega hugtaks fólst ekki síst í því að það virðist falla fullkomlega að því sem höfðu verið lykilröksemdir sjálfstæðisbaráttunnar eins og þær voru mótaðar af Jóni Sigurðssyni um og upp úr miðri 19. öld.“

Í stjórnmálaumræðum þessara ára var fullveldið skilgreint á þann veg að því yrði ekki deilt með annarri þjóð. „Ísland átti að vera fyrir Íslendinga og Íslendinga eina. Samkvæmt þessum skilningi á fullveldinu var það ekki aðeins sameiginleg eign heildarinnar, þjóðarinnar, heldur var fullveldið einnig forsenda þess að íslensk þjóð næði á endanum þeirri stöðu sem mönnum fannst að henni bæri í samfélagi þjóðanna,“ segir prófessor Guðmundur.

Fullveldið var forsenda að sjálfstæði þjóðarinnar 17. júní 1944. Tveir þingmenn greiddu atkvæði gegn sambandslögunum árið 1918, Benedikt Sveinsson (afi minn) og Magnús Torfason.

Benedikt flutti breytingartillögur þegar málið var til umræðu á alþingi í september 1918 og lutu þær að því að afnumið yrði jafnrétti danskra og íslenskra ríkisborgara; afnuminn yrði réttur danskra þegna til fiskveiða hér; þótt utanríkismálin yrðu falin Dönum hefðu Íslendingar rétt til að taka þau hvenær sem þeir vildu í sínar hendur, sömuleiðis strandgæsluna, þá félli dómsvald hæstaréttar í íslenskum málum á brott. Benedikt fann einnig að uppsagnarákvæðum samningsins.

Talsmenn samningsins sögðu að með þessu vildi Benedikt að Danir hefðu aðeins skyldur í sambandinu en engin réttindi. „Danska ríkið verður þjónn íslenzka ríkisins kauplaust, og má segja að ekki sé tilboðið höfðinglegt,“ sagði í blaðinu Fréttir 7. september 1918.

Meirihluti þingmanna taldi Ísland fullvalda ríki þótt vald þjóðarinnar á eigin málum væri þeim takmörkunum háð sem hann Benedikt vildi afmá með breytingartillögum sínum. Í þessu sambandi ber einnig að hafa í huga að á þessum árum töldu ýmsir í Danmörku að sambandslagasamningurinn væri „danskt innanríkismál“ eins og enn þann dag í dag er litið á samskipti danskra stjórnvalda við heimastjórnirnar í Færeyjum og á Grænlandi.