1.12.2021 9:46

Fullveldið þá og nú

Það verður að beita öðrum rökum en lögfræðilegum við skilgreiningu á fullveldinu nú á tímum.

Fyrsti desember, fullveldisdagurinn. Það fer ekki eins mikið fyrir honum í fjölmiðlum og „degi einhleypra“, „svörtum föstudegi“ eða „stafrænum mánudegi“ svo að nefndir séu nokkrir dagar sem kaupsýslu- og verslunarmenn hafa tileinkað sér fyrir áhrif frá Bandaríkjunum. Þar gegna þessir dagar mikilvægu hlutverki í viðskiptalífinu sem útsöludagar í aðdraganda jólahátíðarinnar, auðvelda að birgja sig upp að nýjum vörum fyrir hana.

Hér er fullveldið skilgreint með vísan til stjórnarskrárinnar. Þegar sambandslagasáttmálinn var gerður árið 1918 og tryggði okkur fullveldi var þetta orð ekki notað. Þjóðin fékk aukinn rétt til sjálfsákvörðunar innan danska konungdæmisins, gat komið á fót eigin landhelgisgæslu og hæstarétti en átti margt sameiginlegt með Dönum sem nú yrði túlkað sem brot á fullveldi Íslands samkvæmt ströngum skilningi lögfræðinnar á fullveldinu. Stjórnarskrárákvæðin hafa þó ekkert breyst frá því sem var árið 1918.

Fr_20150414_012564Undanfarið hefur ríkissjónvarpið sýnt heimildarþáttaröð í þremur hlutum frá BBC þar sem sagnfræðingurinn Simon Schama fjallar um rómantísku stefnuna og áhrif hennar í samtímanum. Síðasti þátturinn snerist um ættjarðarástina, söfnun þjóðsagna og rækt við þjóðlega menningu. Allt þetta rímaði við það sem hér gerðist á 19. öld þegar sjálfstæðisþráin kviknaði með aukinni rækt við íslenska tungu, náttúru landsins og menningu þjóðarinnar.

Pólsk kvikmynd, Kalt stríð, sem ríkissjónvarpið sýndi á sunnudagskvöld snerist um mátt þjóðlegrar menningar, tónlistar, söngva og þjóðdansa til að skapa Pólverjum sjálfstraust á rústum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Upphaf styrjaldarinnar var að Hitler og Stalín vildu uppræta pólska menningu, skipta Póllandi á milli sín og fara með íbúa þess að eigin vild. Þjóðlega endurreisnin í kvikmyndinni tók óheillavænlega stefnu þegar kommúnistastjórnin í Varsjá krafðist þess að dýrðaróður um Stalín yrði settur á dagskrá kórsins.

Í tæp 30 ár hefur samningurinn um evrópska efnahagssvæðið (EES) gilt hér. Aðild að honum gjörbreytti íslensku samfélagi. Fyrstu áhrif EES-aðildarinnar birtust á sviði rannsókna- og vísinda og í tækifærum til samstarfs í menntamálum. Þá gegna ákvæðin um frjálsa för til starfa og dvalar í EES-löndum lykilhlutverki þegar litið er til réttarstöðu tugþúsunda manna hér eða Íslendinga erlendis. Að stjórnarskránni og þögn hennar um fullveldið verði beitt til að svipta allt þetta fólk eða fyrirtæki réttinum sem felst í EES-aðildinni gerist ekki.

Það verður að beita öðrum rökum en lögfræðilegum við skilgreiningu á fullveldinu nú á tímum. Eins og áður verða þjóðir að sækja styrk í menningararf sinn og uppruna til að skapa sér það svigrúm sem þær vilja njóta. Lögin eru aðeins umgjörð. Það þýðir lítið að setja ákvæði um íslenska tungu í lög eða stjórnarskrá sé ekki lögð rækt við að efla skilning á gildi hennar.

Alþjóðlegir straumar hafa ávallt leikið um Íslendinga og menningu þeirra. Tekist hefur að virkja þá til styrkja menningarlegu stoðirnar. Oft hefur það kostað verulegt átak. Svo er enn þann dag í dag.