9.11.2018 10:36

Fullveldið - Ásdís Halla - EES-skýrsla

Þetta er mögnuð frásögn og má segja að æfi Ásdísar Höllu, formæðra og forfeðra standi vel undir því að birtast í tveimur bókum.

Fullveldisafmælisárið er brátt á enda. Margrét Danadrottning er væntanleg hingað til lands 1. desember, kemur í hlut ríkisstjórnarinnar að halda upp á þann dag. Í gær (8. nóvember) voru kynntar í Safnahúsinu tvær bækur sem Sögufélag gefur út í samstarfi við afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Nefndin starfar undir formennsku Einars K. Guðfinnssonar, fyrrv. þingforseta og ráðherra.

Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur er höfundur bókarinnar Hinir útvöldu: Sagan af því þegar Ísland varð sjálfstætt ríki árið 1918. Í bókinni Frjálst og fullvalda ríki: Ísland 1918-2018 eru 10 greinar eftir 13 höfunda, lögfræðinga, sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga, sem skoða fullveldið frá ólíkum fræðilegum sjónarhornum. Ritstjóri bókarinnar var Guðmundur Jónsson prófessor og auk hans sátu í ritnefnd prófessorarnir Guðmundur Hálfdanarson og Ragnhildur Helgadóttir ásamt dr. Þorsteini Magnússyni, varaskrifstofustjóra alþingis.

Bókunum var fagnað af fjölmenni í Safnahúsinu og fékk Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands fyrstu eintök þeirra.

 ***

Leið okkar lá af Hverfisgötunni í annað útgáfuhóf. Það var í Ásmundarsafni á Skólavörðuholti. Þar fagnaði Ásdís Halla Bragadóttir nýrri bók sinni Hornauga sem gefin er út af Veröld. Um árið stóð Veröld einnig að útgáfu bókar Ásdísar, Tvísögu. Hún varð meðal metsölubóka og nú hafa þær fréttir borist frá Veröld að prentuð hafi verið 11.000 eintök af nýju bókinni.

45769002_10214912632701863_2855155453627727872_nMyndin er af FB-síðu Ásdísar Höllu sem .þarna kynnir bók sína.

Í fyrri bókinni hallar Ásdís Halla sér að móður sinni og hennar fólki en segir einnig frá leitinni að blóðföður sínum sem hún fann. Sagan Hornauga er af honum og föðurfólkinu.

Þetta er mögnuð frásögn og má segja að æfi Ásdísar Höllu, formæðra og forfeðra standi vel undir því að birtast í tveimur bókum. Undrun vekur hve nærri hún gengur sér og þeim standa henni næst en allt er það gert á fagmannlegan og fallegan hátt.

Í stuttu ávarpi sagðist Ásdís Halla ekki treysta sér til að lesa fyrir gesti sína úr þessari bók frekar en Tvísögu. Er það til marks um hve nærri henni frásögnin er.

Líklegt er að öll eintökin sem Veröld hefur látið prenta seljist.

 ***


 Í fyrra og að nýju fyrir nokkru lögðu nokkrir þingmenn fram ósk til utanríkisráðherra um skýrslu um kosti og galla EES-samstarfsins. Ráðherrann fór þess á leit við mig að leiða starfshóp við skýrslugerðina en í honum eru auk mín lögfræðingarnir Kristrún Heimisdóttir og Bergþóra Halldórsdóttir, ritari okkar er Pétur Gunnarsson í utanríkisráðuneytinu. Við hófum störf í byrjun september og höfum efnt til 9 funda og fengið 30 gesti til viðtals við okkur.

Í gær sá fréttastofa ríkisútvarpsins ástæðu til að spyrja utanríkisráðuneytið um hvað gerð þessarar skýrslu kostaði. Ráðuneytið svaraði að áætlaðar væru 25 m. kr. til verksins. Þessi tala hefur aldrei verið kynnt starfshópnum eða hvernig hún skiptist á einstaka liði. Það var ekki að sökum að spyrja að látið var eins og greiðsla þessara fjármuna væri einhver greiði við mig eða okkur sem tókum að okkur verkið. Alröng fyrirsögn birtist til dæmis á eyjan.is og síðan þessi afsökun:

„Fyrirsögn fréttarinnar „Björn Bjarnason fær 25 milljónir frá Guðlaugi Þór fyrir skýrslugerð um EES“ var breytt þar sem skilja mátti hana sem svo, án samhengis, að Björn fengi 25 milljónir króna í laun fyrir skýrslugerðina, þó svo málið sé skýrt í fréttinni sjálfri og laun Björns liggi ekki fyrir.

Eru hlutaðeigandi beðnir velvirðingar.“

Með röngu fyrirsögninni hvatti eyjan.is athugasemdaflónin til dáða og tókst það.

Staðreyndir þessa máls eru að þingmenn báðu utanríkisráðherra um skýrslu, hana þarf að semja og utanríkisráðuneytið telur að það kosti 25 m. kr. Við sem að verkinu vinnum höfum fram til 1. september 2019 til að ljúka því. Þá fyrst kemur að skuldadögunum fyrir þá sem réðu okkur til verksins.