1.12.2023 9:32

Fullveldi til framtíðar

Fullveldisumræður eiga að snúast um framtíðina þótt hún sé óráðin. Viðfangsefni líðandi stundar er að íhuga hvernig þjóðin getur nýtt fullveldið best til að búa í haginn fyrir framtíðina. 

Í fullveldisyfirlýsingum í tilefni af 1. desember er gjarnan litið til baka og rifjað upp hve ömurlegt var um að litast í Reykjavík fyrir 105 árum vegna spænsku veikinnar og frostaveturs. Upprifjanir af því tagi minna á að jafnvel við dapurlegar ytri aðstæður skiptir miklu að horfa af bjartsýni til framtíðar, kannski er það aldrei brýnna en einmitt þá.

IMG_8782

Fullveldisumræður eiga að snúast um framtíðina þótt hún sé óráðin. Viðfangsefni líðandi stundar er að íhuga hvernig þjóðin getur nýtt fullveldið best til að búa í haginn fyrir framtíðina. Við breytum ekki fortíðinni. Við getum hins vegar lagt okkar af mörkum til að gera okkur framtíðina bærilegri. Hér skulu nefnd þrjú viðfangsefni:

1. Kjarasamningar. Það var ánægjulegt að heyra Finnbjörn A. Hermannsson, forseta ASÍ, segja í ríkisútvarpsfréttum 30. nóvember að hann gerði ekki ráð fyrir að boðaðar gjaldahækkanir sveitarfélaga tefðu kjaraviðræður. Þær væru einn þáttur af stóru verkefni sem hlypi ekki frá hreyfingunni: „Við þurfum að semja. Við þurfum að ná þessari verðbólgu niður. Við þurfum að ná vöxtunum niður. Það þurfa bara allir að taka þátt í því,“ sagði Finnbjörn. Nú um helgina er eitt ár frá því að Vilhjálmur Birgisson á Akranesi lagði grunn að skammtímasamningi. Nú skiptir mestu að góðir kjarasamningar náist til langs tíma. Það er nauðsynleg og góð lyftistöng fyrir ASÍ að hafa þar forgöngu.

2. Þjóðaröryggi. Undir öryggishugtakið fellur fleira en landvarnir. Þær verður að tryggja með aukinni þátttöku okkar sjálfra á viðsjárverðum tímum. Biluð vatnsleiðsla á hafsbotni til Vestmannaeyja minnir á nauðsyn þess að gæta allra neðansjávarstrengja. Um nokkurra vikna skeið hefur þess verið beðið hvað verða vill á Reykjanesi vegna hræringa í iðrum jarðar. Gripið hefur verið til róttækra ráðstafana til verndar mönnum og mannvirkjum. Samhliða landvörnum verður að tryggja öflugar almannavarnir.

3. Gervigreind. Við stöndum á þröskuldi tæknibyltingar sem líkt er við það sem gerðist þegar rafmagnið kom til sögunnar og gjörbreytti lífi manna um heim allan. Ef við nýtum ekki auðlindir okkar til orkuframleiðslu í þágu nýju tækninnar afsölum við okkur að njóta afrakstrar þessarar byltingar. Í henni reynir einnig á inntak hugtaka sem lagt hafa grunn að núverandi skipan heimsmála, stjórnarháttum þjóðríkja og fullveldi þeirra fyrir utan siðferðislega þáttinn. Hér dugar ekki að stinga höfðinu í sandinn heldur verður að horfast í augu við viðfangsefnið og takast á við það.

Viðfangsefnin eru miklu fleiri. Þau vega öll miklu þyngra en það sem jafnan ber hæst í dægurþrasinu. Hættan er að menn sökkvi sér svo djúpt í þrasið að þeir gleymi því sem mestu skiptir fyrir sjálfstæða og fullvalda þjóð: að halda þannig á eigin málum inn og út á við að mark sé á henni tekið.