Fullveldi einstaklinga
Nú standa mál enn þannig að annaðhvort taka alþingismenn af skarið og veita íslenskum ríkisborgurum þann rétt sem þeim ber samkvæmt aðildinni að EES eða EFTA-dómstóllinn gefur ríkinu fyrirmæli um það.
Á liðnum vetri féll dómur í hæstarétti sem sýndi að íslenskir ríkisborgarar njóta ekki þess réttar sem þeim er tryggður með EES-samningnum vegna orðalags í 3. grein laga um EES-samninginn sem stangast á við það sem segir í greinargerð með lögunum. Dómarar hér bentu á fyrir löngu að þegar þannig stæði á vægi texti laganna þyngra en orð í greinargerð. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, vakti athygli íslenskra stjórnvalda á þessum réttindaskorti í íslenskri lögsögu og hvatti til breytinga.
Þegar frumvarp utanríkisráðherra til að leiðrétta þetta misvægi borgurunum í hag var á lokametrunum á Alþingi vorið 2023 brá vinstri grænn formaður utanríkismálanefndar alþingis fæti fyrir afgreiðslu þess. Á þingi veturinn 2023/24 var lögð fram skýrsla frá utanríkisráðherra þar sem allar hliðar þessa máls voru reifaðar.
Skýrslan sýnir að það er af og frá að ný skýringarregla í lögunum um EES feli í sér einhverja eftirgjöf á fullveldi íslenska ríkisins í EES-samstarfinu. Skárra væri það ef fullveldi ríkisins skertist við að tryggja borgurunum þann rétt sem alþingi vildi að þeir hlytu með aðildinni að EES-samstarfinu og innri markaði þess.
Í fyrsta dómi hæstaréttar sem snerist um þá réttarstöðu var 3. gr. EES-laganna túlkuð á annan veg en síðar varð. Sá dómur mótaðist vafalaust af umræðunum um EES-aðildina við upphaf samstarfsins en fyrnst hefur yfir þær á 30 árum.
Nú standa mál enn þannig að annaðhvort taka alþingismenn af skarið og veita íslenskum ríkisborgurum þann rétt sem þeim ber samkvæmt aðildinni að EES eða EFTA-dómstóllinn gefur ríkinu fyrirmæli um það.
Þannig virkar tveggja stoða kerfið í EES en Íslendingar koma að öllum ákvörðunum sem teknar eru EFTA-megin í því kerfi og því fráleitt að láta eins og öryggisventlar þess starfi án íslenskrar þátttöku.
Tekist hefur á nokkrum misserum að draga fram réttarskerðinguna sem felst í því að innlend stjórnvöld nota eða réttara sagt misnota reglur sem leiða af EES-samstarfinu til að lög- eða reglufesta ákvæði sem ganga lengra en EES-samstarfið krefst. Er þetta kallað gullhúðun og hefur verið skorin upp herör gegn henni.
Í gullhúðunarbaráttunni hafa öflug samtök í viðskipta- og atvinnulífi látið að sér kveða. Þeir sem berjast fyrir leiðréttingu á stöðu almenna borgarans með nýrri lögskýringarreglu í EES-lögunum eiga í höggi við andófsmenn á jöðrunum til hægri og vinstri sem segjast standa vörð um fullveldi ríkisins með því að troða á fullveldisrétti borgara ríkisins.
Það er mikill misskilningur að breyting á lögunum um EES hafi eitthvað með gildistöku bókunar 35 við EES-samninginn að gera. Bókunin hefur bundið íslenska ríkið þjóðréttarlega í rúm 30 ár. Hún haggast ekkert við að íslensk lög geri dómstólum kleift að dæma Íslendingum þann rétt sem þeir fengu með bókun 35. Það er löngu tímabært að sá réttur sé tryggður. Einkennilegast í þessu máli er að menn rísi gegn slíkri leiðréttingu.