11.10.2023 9:12

Frumkvæði Bjarna

Bjarni Benediktsson hafði frumkvæði að því að ríkisendurskoðun tók málið til rannsóknar og birti skýrslu um málið. Bjarni beitti sér einnig fyrir því að bankasýslan birti lista yfir kaupendur hlutabréfa í útboðinu.

Í Kastljós ríkissjónvarpsins komu þrír alþingismenn að kvöldi þriðjudagsins 10. október og ræddu brotthvarf Bjarna Benediktssonar úr embætti fjármála- og efnahagsráðherra.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bar af í málflutningi sínum hún var í senn málefnaleg og skelegg. Hún missti ekki sjónar á kjarna málsins varðandi sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Hann hefði skilað ríkissjóði meiri tekjum en við bar búist og með ákvörðun sinni um að hverfa úr fjármálaráðuneytinu auðveldaði Bjarni að verkefninu yrði lokið og allur bankinn seldur.

Dauft var yfir Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar. Var eins og hún hefði tapað einhverju enda hefur stjórnmálabarátta hennar til þessa einkennst af þeirri kenningu að fjármálaráðuneytið sé máttugast allra ráðherraembætta og Bjarni nýti sér það ótæpilega. Hún taldi hann hafa tekið rétta ákvörðun en minnti oftar en einu sinni á að ekki mætti gleyma sögu málsins, gott ef hún gaf ekki til kynna að stjórnarandstaðan hefði kallað ríkisendurskoðun á vettvang til að kanna söluna.

Sé sagan könnuð eftir að deilur hófust um sölu 22,5% eignar ríkissjóðs í Íslandsbanka í mars 2022 kemur í ljós að Bjarni Benediktsson hafði frumkvæði að því að ríkisendurskoðun tók málið til rannsóknar og birti skýrslu um málið. Bjarni beitti sér einnig fyrir því að bankasýslan birti lista yfir kaupendur hlutabréfa í útboðinu. Fjármálaeftirlitið gerði úttekt á framkvæmd sölu hlutabréfanna. Allt dró þetta dilk á eftir sér. Umboðsmaður alþingis hafði sjálfur frumkvæði að þeirri rannsókn sem leiddi til þess að hann taldi Bjarna hafa „brostið hæfi“ til að standa að sölu bankans.

A2023-10-11_w272

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, var þriðji þingmaðurinn í Kastljósi og honum lá helst á hjarta að Bjarni hefði tekið mark á niðurstöðu umboðsmanns þótt hann væri ósammála henni. Að gagnrýna Bjarna fyrir þetta jafngildir því að veitast að þeim sem sætta sig við niðurstöðu dómsmáls þótt þeir séu ósammála henni. Hvað sem slíkum skoðunum líður verða menn að hlíta dómnum.

Reyndur lögmaður og fyrrv. alþingismaður, Brynjar Níelsson, segir á FB-síðu sinni í gær: „Þegar álitið er lesið má sjá að umboðsmaður gerir heldur ekki ráð fyrir þessum afleiðingum [að Bjarni segi sig frá ráðherraembættinu].“ Um þetta getur enginn fullyrt en hitt er rétt hjá Brynjari og leiðarahöfundi Morgunblaðsins í dag (11. okt.) að Bjarna var ekki skylt að segja sig frá embættinu vegna álits umboðsmanns. Bjarni telur hins vegar mikilvægt að virða álit umboðsmanns, sérstaks trúnaðarmanns alþingis, þótt hann sé ósammála niðurstöðunni „Álit hans er að mig hafi brostið hæfi í málinu. Ég virði þá niðurstöðu.“

Spurningin um hæfi eða vanhæfi sækir oft á þá sem starfa innan ramma stjórnsýslulaganna. Álit umboðsmanns í þessu máli geymir lögfræðilegar vangaveltur og gamalkunnar kvartanir um skort á raungögnum. Niðurstaðan er skortur á hæfi. Í því felst alls ekki að Bjarni Benediktsson sé þar með óhæfur til að gegna ráðherraembætti. Næsta skref snýr að ákvörðun um hvert það verður.