Frumhlaup Kristrúnar
Þeir sem stóðu að skipulagi leiðtogafundarins eiga lof skilið fyrir allt sem að því snýr og enn sannaðist hve Harpa er vel hönnuð til fjölnota.
Nú um tveimur sólarhringum eftir að leiðtogafundi Evrópuráðsins lauk í Hörpu og farið hefur verið í saumana á flestu sem framkvæmd fundarins varðar hefur ekki verið sagt orð um neitt sem fór úrskeiðis.
Umstangið í kringum fundinn truflaði umferð og tafði. Hefði ekki verið lokað svona stóru svæði í kringum Hörpu hefði líklega þurft að kalla til enn fleiri lögreglumenn með liðsauka frá Norðurlöndunum, þaðan stóðu tæplega 100 lögreglumenn vaktina hér. Það var líklega óvenjulegast við allt skipulag viðburðarins og sannar hve mikilvægt er að íslensk lögregluyfirvöld eigi náið og gott samstarf við systurstofnanir erlendis – ber að haga íslenskri löggjöf í samræmi við það.
Þeir sem stóðu að skipulagi fundarins eiga lof skilið fyrir allt sem að því snýr og enn sannaðist hve Harpa er vel hönnuð til fjölnota.
Leiðtoga fylgt af fundinum í Hörpu (mynd:; mbl.is/Kristinn Magnússon)
Alþingi kom saman til tveggja funda í vikunni, mánudag og þriðjudag. Fyrri daginn steig Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í ræðustól og tilkynnti að fæðingarorlofi sínu væri lokið en sér þætti undarlegt að hún sæi engan ráðherra sem hún gæti skammað fyrir aðgerðarleysi sem hún gerði þó að þeim fjarverandi.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG, vék að þessum orðum formanns Samfylkingarinnar í þingræðu síðari fundardag vikunnar, þriðjudaginn 16. maí, sama dag og leiðtogafundurinn hófst. Taldi hún ómaklegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar létu „eins og forsætisráðherra gerði sér það að leik að taka á móti leiðtogum annarra þjóða, eins og það [hefði] ekki þýðingu“.
Helga Vala Helgadóttir, sem Kristrún vék úr formennsku í þingflokki Samfylkingarinnar, tók þá fram að hún væri „stoltur gestgjafi“ leiðtoga Evrópuráðsríkjanna og hún óskaði „þeim sem halda utan um þennan risastóra viðburð góðs gengis“. Það kvað sem sagt við allt annan tón hjá Helgu Völu en Kristrúnu.
Jóhann Páll Jóhannsson er helsti stuðningsmaður Kristrúnar í sex manna þingflokki Samfylkingarinnar. Honum þótti nóg um að þingmenn beindu orðum sínum að Kristrúnu, þingmanni sem væri fjarverandi „einmitt vegna þess að hún er að eiga samskipti við þjóðarleiðtoga í þessum töluðu orðum. Það er nú ástæðan fyrir því að hún er ekki hér,“ sagði hann.
Honum fannst „athyglisvert hvernig þingmenn stjórnarliðsins stökkva upp á nef sér og gera einmitt orrahríð að fólki sem getur ekki svarað fyrir sig hér“.
Það sem gerðist á alþingi vegna leiðtogafundarins að frumkvæði Kristrúnar Frostadóttur er líklega eitt undarlegasta pólitíska atvikið sem varð vegna fundarins og sýnir annaðhvort algjört dómgreindarleysi eða dæmalausan klaufaskap.
Fyrri þingfundardag vikunnar veitist formaður Samfylkingarinnar að fjarverandi ráðherranum, seinni þingfundardaginn er flokksformaðurinn fjarverandi og þá skammar flokksbróðir hennar þingmenn fyrir að gagnrýna hana. Kristrún lauk fæðingarorlofinu svo að hún gæti átt „samskipti við þjóðarleiðtoga“.