4.5.2019 12:17

Frosti býður í óvissuferð

Frosti samþykkti þessa innleiðingu og felldi breytingartillögu um að orðin „raforkuflutnings til annarra landa“ færu úr lagatextanum. Frosti vildi hafa þessi orð inni.

Frosti Sigurjónsson, fyrrv. þingmaður Framsóknarflokksins, skrifar grein í Morgunblaðið í dag (4. maí) þar sem hann áréttar enn þá skoðun sína að hafna beri þriðja orkupakka (O3) ESB. Frosti sat á alþingi 2013 til 2016. Hann sat allan þingtíma sinn í utanríkismálanefnd alþingis.

O3 hefur verið á borði íslenskra stjórnvalda frá árinu 2010. Á meðan Frosti sat á alþingi samþykktu þingnefndir álit um þriðja orkupakkann að tilmælum Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra, flokksbróður Frosta. Nefndirnar töldu ekki neitt standa í vegi þess að O3 næði fram að ganga. Snemma árs 2015 var flutt frv. um að leiða í íslensk lög ákvæði úr O3 sem snertu flutninga-kerfisáætlanir vegna raforku. Frosti samþykkti þessa innleiðingu og felldi breytingartillögu um að orðin „raforkuflutnings til annarra landa“ færu úr lagatextanum. Frosti vildi hafa þessi orð inni.

Utanríkismálanefnd Alþingis lauk umfjöllun sinni með áliti, dags. 20. september 2016, þar sem einnig voru send með álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, dags. 27. nóvember 2014, og atvinnuveganefndar Alþingis, dags. 23. október 2014. Í áliti utanríkismálanefndar Alþingis kemur fram að „sú aðlögun sem samið hefur verið um byggir á tveggja stoða kerfi EES-samningsins og er sambærileg því sem samið er um vegna gerða um evrópskt fjármálaeftirlitskerfi“. Frosti sat í nefndinni þegar þetta álit var gefið og á grundvelli þess studdi fulltrúi Íslands 5. maí 2017 að fella O3 inn í EES-samninginn.

Cartoon-bus1Öll EFTA-ríkin þrjú innan EES tóku ákvörðunina 5. maí 2017 með stjórnskipulegum fyrirvara. Bæði Noregur og Liechtenstein hafa þegar aflétt stjórnskipulegum fyrirvara af sinni hálfu. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekur ekki gildi fyrr en alþingi Íslendinga hefur aflétt fyrirvaranum.

Fyrrnefnd grein Frosta í Morgunblaðinu snýst um að nú eigi ríkisstjórn og alþingi að ganga gegn öllu sem þessar æðstu stofnanir ríkisins hafa gert í O3-málinu til þessa. Með því að gera sjálfar sig marklausar sé tekin minni áhætta heldur en að standa áfram að stefnu og ákvörðunum sem teknar voru á meðan Frosti Sigurjónsson sat á alþingi og í utanríkismálanefnd þingsins.

Kúvendingin í afstöðu Frosta birtist í þessari furðulegu kenningu hans: „Við þurfum einmitt að segja nei við þriðja orkupakkanum til að verja EES-samstarfið.“

Vangaveltur hans um það sem við tæki yrði farið að þessum ráðum hans eru álíka haldlitlar og vangaveltur hans um að hingað yrði lagður rafstrengur í sjó í óþökk þings og þjóðar yrði ekki farið að ráðum hans.

Hvernig sem á málið er litið er minni áhætta fólgin í því að fara leiðina sem ríkisstjórnin og þingflokkar stjórnarflokkanna hafa markað en í óvissuferð með Frosta Sigurjónssyni. Sveiflurnar í afstöðu hans og afneitun á því sem áður hefur gerst eru betri leiðarvísar en spá hans um framtíðina.