23.12.2023 10:29

Frjáls för Grindvíkinga

Sé ekki farið vel með valdið sem almannavarnalögin heimila er hætta á að grafið sé undan kerfinu. Þar ræður hættumat, greining á váboðum og viðbrögð við þeim.

Óveður með mikilli sjávarhæð gekk yfir Danmörku í vikunni. Víða var gripið til ráðstafana til varnar gegn flóðum. Danska ríkissjónvarpið (DR) var með beinar útsendingar til að miðla upplýsingum til almennings. Fréttamenn fóru um landið og ræddu við heimamenn. Frá því var skýrt að ástæða væri til að fara varlega um skóglendi vegna lífshættu þar sem tré kynnu að brotna eða rifna upp með rótum. Stórabeltisbrúin var undir smásjá.

Það vekur athygli íslensks áhorfanda að ekki var getið um fyrirmæli frá almannavörnum eða minnst á samhæfingu í nafni þeirra. Þá var ekki talað um björgunarsveitir eða gæslu og viðbrögð á þeirra vegum.

Almannavarnakerfið hér hefur margsannað gildi sitt. Kerfið er í raun einfalt og sveigjanlegt undir stjórn ríkislögreglustjóra. Með samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð og síðan svæðisstjórnum þar sem sérstök hætta er tekst að halda mikilvægum þráðum á einni hendi og fá nauðsynlega yfirsýn til að skipuleggja viðbrögð. Lögreglustjórar á hverjum stað gegna lykilhlutverki við framkvæmd aðgerða í samvinnu við almannavarnaráð eða nefndir.

Sé ekki farið vel með valdið sem lögin heimila er hætta á að grafið sé undan kerfinu. Þar ræður hættumat, greining á váboðum og viðbrögð við þeim.

Núgildandi almannavarnalög voru upphaflega með ákvæði um að óhlutdrægir aðilar, rannsóknarnefnd, skyldu gera úttekt á hverju tilviki þar sem reyndi á lögin og framkvæmd þeirra. Ákvæðið var hins vegar fellt úr lögunum, illu heilli. Það liggur til dæmis ekki fyrir nein slík úttekt á því hvernig lögin reyndust í heimsfaraldrinum þegar gefin voru út boð og bönn um daglegt líf í landinu.

1452904Mannauð Grindavík. Engar skemmdir eru sjáanlegar á kirkjunni (mynd: mbl/Eggert Jóhanneson).

Nú reynir enn á bannheimildir laganna vegna jarðeldanna á Reykjanesi og brottvísunar íbúa Grindavíkur frá heimilum sínum. Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. segir réttilega á Facebook-síðu sinni 22. desember að þessar ákvarðanir hafi „vakið upp spurningar um þýðingarmikil atriði sem snerta lagalegan grundvöll þjóðfélags okkar“.

Þá segir Jón Steinar:

„Margir virðast líta á ríkið sem eins konar félag, þar sem stjórnendur þess ráði hvaða málefnum borgaranna sem er. Þeir geti sagt félagsmönnum til um hvers kyns breytni þeirra. Þetta er að mínum dómi mikill misskilningur. Stjórnskipan okkar samkvæmt stjórnarskránni byggist á því að borgararnir hafi frelsi til að ráða sér sjálfir í málefnum sem ekki snerta aðra. Þeir bera þá ábyrgð á því sem þeir taka sér fyrir hendur og hróflar ekki við réttindum annarra.“

Hér skal tekið undir þessa skoðun og því fagnað að lögreglustjórinn á Suðurnesjum tilkynnti 22. desember að frá og með deginum í dag, Þorláksmessu, væri Grindvíkingum heimilt að dveljast allan sólarhringinn í bænum.

Fréttir hafa verið um að unnið sé að endurskoðun almannavarnalaganna. Við þá vinnu hljóta menn að staldra við nauðsyn úttekta á hverju tilviki fyrir sig til að af þeim megi læra. Þá er óhjákvæmilegt að tryggja vandaða málsmeðferð við töku ákvarðana sem snerta grundvallarréttindi borgaranna. Þótt þær séu teknar í skyndi ber að rökstyðja þær og birta á vísum stað.