7.6.2018 10:39

Friðsemd þykir ekki fréttnæm

Þetta mat leiðir sem sagt til þess að Ísland lendir efst á listanum sem friðsamasta land í heimi.

Daníel Þór Magnússon, sjóðsstjóri Fasteignaauðs, segir í samtali við Morgunblaðið í morgun (7. júní):

„Það er einkennilegt að ræða um samdrátt í ferðaþjónustu þegar ferðamönnum er ekki að fækka. Rætt er um samdrátt þegar hlutfallsleg aukning er ekki jafn mikil. Það er villandi orðræða.“

Þessi orð lýsa stöðunni eins og hún er um þessar mundir.

Í fréttum sem reistar eru á tölfræði úr flugstöð Leifs Eiríkssonar um fjölda ferðamanna var mikið gert úr verulega minni fjölgun farþega í apríl 2018 en fyrir ári. Fréttirnar voru þó ekki verið túlkaðar í því ljósi að almennt segja þeir sem stunda ferðaþjónustu að umsvifin í apríl séu jafnan minni en á öðrum árstíma. Aukningin tók einnig kipp strax í maí.

Í gær birtist á vefsíðunni www.vardberg.is frétt um að á undanförnum 10 árum hefði dregið úr friði í heiminum, einkum vegna átaka í Mið-Austurlöndum og Afríku. Ísland væri hins vegar talið friðsamasta ríki heims, Nýja-Sjáland væri í öðru sæti þá kæmu Austurríki, Portúgal og Danmörk. Frá þessu væri skýrt í 12. árskýrslu áströlsku stofnunarinnar Institute for Economics and Peace (IEP) sem birt var í London miðvikudaginn 6. júní.

Friðsemd yfir Þríhyrningi.

Við mat á samfélagslegu öryggi lítur IEP á tíðni morða, fjölda fanga, fjölda lögreglumanna og einnig viðhorf til glæpa. Við mat á herfræðilegum þáttum er litið til fjölda hermanna, hlutfalls útgjald til hermála af efnahag ríkja og einnig hugsanlegs útflutnings á vopnum.

Þetta mat leiðir sem sagt til þess að Ísland lendir efst á listanum sem friðsamasta land í heimi. Ef til vill hefur verið sagt frá þessari niðurstöðu í öðrum íslenskum miðli en vardberg.is. Þó má fullyrða að niðurstaðan hefur ekki vakið mikla athygli og er líklega á fárra vitorði hér. Ástæðan kann að vera sú að um of jákvæða frétt sé að ræða, fjölmiðlamönnum finnist hún ekki eiga erindi inn í neikvæða þjóðfélagsmyndina sem þeir vilja birta okkur eða kynnt er á alþingi. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði til dæmis í þingræðu að kvöldi mánudags 4. júní:

„Hvernig í veröldinni er hægt að bjóða okkur upp á að ætla að standa hér á ofurlaunum og telja fátæku fólki trú um að það drjúpi smjör af öllum stráum í kringum það á sama tíma og það nær ekki endum saman? Á sama tíma og börn þess geta ekki notið tómstunda. Á sama tíma og eldri borgararnir eru að daga uppi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi því að ekkert utanumhald er um þá þegar á að komast heim. Á sama tíma og vex enn fátækt 9,1% barnanna okkar og er núna komin í tæp 10%. Fátækt barna á Íslandi.“

Bendir þetta til friðsamasta samfélags í heimi? Er ástæða til að tala íslenskt samfélag niður á þennan veg? Er ekki nóg að gert í þessu efni? Ferðaþjónustan ætti þó að geta nýtt sér niðurstöðuna um friðsamasta ríki heims gagnvart útlendingum til að rökstyðja ofurverðið sem hún býður þeim.