11.12.2022 10:42

Friðarverðlaun gegn Pútin

Oleksandra Matvistjuk sagði að aðfarir rússneska hersins í Úkraínu minntu á þjóðarmorð. „Pútin hættir ekki fyrr en hann verður stöðvaður,“ sagði hún í Osló.

Fulltrúar þriggja friðarverðlaunahafa Nóbels, frá Belarús, Rússlandi og Úkraínu tóku við verðlaununum í ráðhúsinu í Osló laugardaginn 10. desember. Frá Úkraínu kom Oleksandra Matvistjuk frá Miðstöð borgaralegs frelsis í Kyív, frá Belarús var Natalia Pinstjuk, eiginkona verðlaunahafans Ales Bjaljatski, stofnanda Vjasna réttindahópsins, en Bjaljatski situr í fangelsi í Belarús, fyrir hönd rússnesku Memorial-samtakanna, sem nú eru bönnuð, tók Jan Ratsinskíj við verðlaununum. Hann er stjórnarformaður alþjóðadeildar Memorial og búsettur utan Rússlands.

Ales Bjaljatski var bannað að semja þakkarávarp til flutnings við athöfnina og bar eiginkona hans kveðju frá honum. Hann iðraðist einskis vegna þess að draumar hans væru í húfi. Hún sagði sömu örlög bíða Úkraínu og Belarús sigraði Pútin í Úkraínu, það er að verða einræðisríki háð Rússum þar sem rödd kúgaðra yrði kæfð og að engu höfð.

Oleksandra Matvistjuk sagði Úkraínumenn þrá frið meira en nokkur önnur þjóð í veröldinni. Þeir gætu hins vegar ekki komið á friði með því að leggja niður vopn gagnvart þeim sem á þá hefði ráðist. „Það leiðir ekki til friðar heldur hernáms,“ sagði hún.

64055516_605Natalia Pinstjuk frá Belarús, Jan Ratsinskíj frá Rússlandi og Oleksandra Matvistjuk frá Úkraínu með friðarverðlaun Nóbels 10. desember 2022.

Jan Ratsinskíj sagði það mikils virði Memorial að fulltrúar frá löndunum þremur skiptu verðlaununum á milli sín. Hann sagði að í ríki Pútins væri andstaða við Rússland kölluð fasismi og þar með hefði verið fundin hugmyndafræðileg réttlæting fyrir vitfirrtu og glæpsamlegu árásarstríði gegn Úkraínu.

Oleksandra Matvistjuk vill að komið verði á fót sérstökum alþjóðalegum dómstóli til að dæma Pútin og aðra sem hún segir hafa gerst seka um stríðsglæpi í Úkraínu. Hún efaðist ekki um að fyrr eða síðar yrði Pútin dreginn fyrir rétt. Það ætti einnig að láta Aleksander Lukasjenko, einræðisherra Belarús, svara til saka fyrir dómi.

Jan Ratsinskíj sagðist sannfærður um að menn yrðu látnir svara til saka fyrir stríðsglæpina í Úkraínu. Það væri mikilvægt fyrir rússneskt samfélag að glæpamönnum yrði refsað. Það auðveldaði fólki að takast á við óttann, hann væri enn meiri nú en árið 1987. Með því að nefna þetta ár vísaði Ratsinskíj til aðgerðanna sem Sovétstjórnin greip til á þeim tíma til að létta tök rússneskra kommúnista á samfélaginu og minnka þvinganir á rússneskan almenning.

Oleksandra Matvistjuk sagði að aðfarir rússneska hersins í Úkraínu minntu á þjóðarmorð. „Pútin hættir ekki fyrr en hann verður stöðvaður,“ sagði hún í Osló.