3.1.2023 10:56

Fríblað í kassa - varað við skógi

Hugmyndin um fríblað í svonefndri aldreifingu er sem sagt dauð hér á landi um tveimur áratugum eftir að hún kom til sögunnar, fríblaðið er nú dreifingarkössum.

Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, segir daginn í dag, 3. janúar 2023, marka tímamót í dreifingu blaðsins, það verði nú aðgengilegt „tryggum lesendum sínum á opinberum stöðum, víðast hvar á landinu, í stað þess að því sé dreift í öll hús á helstu þéttbýlisstöðum landsins“.

Hugmyndin um fríblað í svonefndri aldreifingu er sem sagt dauð hér á landi um tveimur áratugum eftir að hún kom til sögunnar, fríblaðið er nú dreifingarkössum.

Fréttablaðið fær nú sama sess og Bændablaðinu sem kemur út á tveggja vikna fresti. Það er til dæmis vinsælt í afgreiðslum sundstaða og hefur að geyma fjölbreytt efni ætlað bændum og áhugamönnum um landbúnað.

Efni Fréttablaðsins er áfram aðgengilegt á netinu og líklegt er að fleiri renni í gegnum blaðið þar en að taka það úr kössunum.

IMG_6250Dreifingarkassi Fréttablaðsins í anddyri sundlaugarinnar í Laugardal.

Hjálmar Waag Árnason, fyrrv. þingmaður Framsóknarflokksins, nefnir í grein í Fréttablaðinu í dag að skógræktarstjóri boði að um 7 milljón trjám verði plantað hér á landi í ár. Hjálmar segir réttilega að margt bendi til „að við höfum farið offari í þessum efnum“. Ríkið verji hundruðum milljóna í skógrækt en þar „virðist ríkja algjört stefnuleysi. Bara að planta trjám sem víðast og hafa tegundir sem flestar“. Hann spyr: „Getur verið að við séum á sömu leið með skógræktina og við fórum með lúpínuna?“

Hjálmar vísar til reynslu Norðmanna sem hafi varið milljónum í skógrækt en verji nú milljónum „í að eyða skógum“. Hjá okkur ríki enn „villta vestrið“ og við séum hvött til að planta trjám úti um allar koppagrundir. Afleiðingarnar séu að byrja að koma í ljós og eigi eftir að versna á löngum tíma.

Þetta er tímabær áminning og ábending hjá Hjálmari Waag Árnasyni.

Hugmyndir um vindorkuver kalla á víðtækar umræður um erfiðar og viðkvæmar skipulagsákvarðanir þar sem ásýnd landsins er meðal annars undir smásjá. Einkennilegt er að skógræktaráform séu ekki rædd á sömu forsendum. Einkennilegast af öllu er þó að alþingi móti ekki landnýtingarstefnu og leitað sé sátta um landnotkun og viðmið fyrir sveitarfélög við skipulagsákvarðanir. Bútasaumur á grundvelli hagsmunapots er mikill skaðvaldur þegar litið er til verndar íslenskrar náttúru. Sjónarmiðum öfgahópa undir merkjum landverndar, skógræktar eða vindorku ber að ýta til hliðar og leita sáttar um meðalveg skynsamlegrar nýtingar.

Gunnlaugur Auðunn Júlíusson leiðsögumaður sem fór með ferðamenn af mörgum þjóðernum um landið í fyrra gerir upp árið á Facebook síðu sinni 2. janúar 2023 og segir meðal annars:

„Það er hart sótt að íslenskri náttúru um þessar mundir.

Að mínu mati er hún fjöregg þjóðarinnar sem verður að standa vörð um með öllum tiltækum ráðum.

Ísland er á margan hátt nokkurskonar Galapagos norðursins samkvæmt minni upplifun af því að fylgja erlendu ferðafólki um landið.“

Sama hvert litið er í kringum okkur hér – ábyrgðin á að gæta landsins er mikil en nýta það samt í þágu blómlegs mannlífs.