Fréttir af netstríði
Þetta eru raunheimafréttir úr netheimi. Um þær ber að fjalla eins og hvert annað málefni líðandi stundar.
Umræður um netöryggismál eru á allt öðru stigi erlendis en hér á landi. Á sama við um þau öryggismál og önnur. Stjórnmálamenn eða fjölmiðlamenn líta þessi málefni ekki sömu augum hér og gert er annars staðar.
Nýlega var sagt frá innbroti tölvuþrjóta inn í eitt af stærstu netöryggisfyrirtækjum heims, FireEye. Tókst þrjótunum að finna bakdyr inn í forrit frá Solarwinds og lauma spilliforriti sínu þar inn með uppfærslu í mars 2020. Talið er hugsanlegt að á þennan hátt megi ná til tæplega 10.000 viðskiptavina í 100 löndum og þar af til helmings af 2.000 stærstu fyrirtækjum heims.
Í dönskum fjölmiðlum kemur fram að síðan í vor kunni þetta að hafa leitt til þess að laumast hafi verið í verðmæt gögn hjá áhrifamiklum dönskum fyrirtækjum.
Þá kemur fram að vegna þessa hafi Center for Cybersikkerhed, netöryggismiðstöðin, undir Forsvarets Efterretningstjeneste, leyniþjónustu hersins, gripið til margvíslegra aðgerða til að vara upplýsingakerfisstjóra í dönsku atvinnulífi við, ef til vill séu ekki allir netþjónar og beinar eins vel varðir og menn haldi.
Viðvaranir af þessu tagi eiga erindi hingað til lands. Hafa þær verið gefnar? Hvaða stjórnvald hér gegnir sama hlutverki og Center for Cybersikkerhed í Danmörku? Hver veitir íslenskum stjórnvöldum sambærilegar upplýsingar og danskir ráðamenn fá frá Forsvarets Efterretningstjeneste? Hafa menn heyrt spurningar í þessa veru á alþingi?
Nú í vikunni tilkynnti Hurtigruten, norska skipafélagið sem annast strandsiglingar við Noreg, að ráðist hefði verið á netþjóna þess og lægi net- og símaþjónusta fyrirtækisins niðri. Sagði í tilkynningu skipafélagsins þriðjudaginn 15. desember að í samvinnu við norsk yfirvöld væri unnið að því að meta ástandið og draga sem mest úr tjóninu og útbreiðslu þess.
Í fréttum af árásinni á Hurtigruten segir að samhliða því sem stafræn tækni sé innleidd í siglingum leggi norsk yfirvöld áherslu á að efla öryggisgæslu á þessu sviði með því að koma á fót alþjóðlegri miðstöð, Norwegian Maritime Cyber Resilience Center (NORMA Cyber), í ársbyrjun 2021.
Loks má geta þess að Tommy Zwicky, sem ráðinn var kynningar- og útbreiðslufulltrúi Huawei, kínverska net- og tæknirisans, í Danmörku í júlí 2020 sagði af sér 15. desember þegar upplýst var að andlitsgreiningartækni Huawei væri notuð til að finna Uighura, einstaklinga úr múslímskum minnihlutahópi í Kína, sem sætir ofsóknum Xinjiang-héraði í Vestur-Kína. Með aðstoð Huawei-tækninnar er fólkið leitað uppi og lokað inni í innrætingarbúðum.
Þetta eru raunheimafréttir úr netheimi. Um þær ber að fjalla eins og hvert annað málefni líðandi stundar, viðfangsefnið hverfur ekki með þögninni og öryggið er ekki tryggt með hótfyndni, vangaveltum eða aðgerðaleysi.