11.7.2018 10:03

Fréttasviðið þrengist í Efstaleiti

Af fréttum RÚV má ráða að stjórnendur þeirra færi sig sífellt meira inn á þrengra svið. RÚV sé í raun að breytast í landsfréttastöð þar sem erlendar fréttir mæti afgangi.

Samkeppniseftirlitið gerði athugun vegna kvartana samskeppnisaðila ríkisútvarpsins (RÚV) í tilefni af sölu á auglýsingum í tengslum við HM í Rússlandi. Niðurstaða eftirlitsins var að „enginn áskilnaður“ hefði verið gerður um lágmarkskaup í tengslum við kaup á auglýsingum í kringum HM.

Keppinautarnir segja málinu ekki lokið. Í sölugögnum RÚV segi að fyrirtæki hefðu þurft að kaupa birtingar fyrir 10 milljónir króna í júní og júlí til að tryggja að auglýsing þeirra birtust í kringum leiki Íslands. Keppinautarnir hafa kærufrest til 20. júlí til að leggja ný gögn fyrir Samkeppniseftirlitið.

Cam_01_2016_04_05_bSamhliða því sem þrengir að útvarpshúsinu í Efstaleiti þrengist fréttasviðið.

Má segja að óhjákvæmileiki komi jafnan í ljós þegar litið er til málefna RÚV og hann verði til þess að fyrirtækið fari sínu fram með rúma 4 milljarða af skattfé að baki sér. Með auglýsingum aflar það rúmlega 2 milljarða að auki. RÚV hefur því slíka fjárhagslega yfirburði á fjölmiðlamarkaðnum að þeir einir ættu að knýja á um aðgerðir af hálfu samkepnnisyfirvalda og fjölmiðlanefndar. Að þessi staða líðist á fjölmiðlamarkaði sem sagður er frjáls er að sjálfsögðu út í hött.

Hér eins og annars staðar hefur þróunin orðið sú á tímum alþjóðavæðingar í fjölmiðlun að einstakslings- eða staðarvæðing eykst. Einstaklingar miðla á netinu fréttum eða fróðleik sem tekur mið af nærumhverfi þeirra og áhugamálum auk þess sem staðbundnar fréttir birtast í landshluta- eða hverfablöðum.

Ryksugun RÚV á auglýsingamarkaðnum vegna HM bitnar illa á einkareknum sjónvarpsstöðvum eins og Hringbraut eða N4 sem eru dæmigerðar staðbundnar stöðvar sem reisa afkomu sína á auglýsingum.

Af fréttum RÚV má ráða að stjórnendur þeirra færi sig sífellt meira inn á þrengra svið. RÚV sé í raun að breytast í landsfréttastöð þar sem erlendar fréttir mæti afgangi. Fréttastofan hafi gefist upp við að skýra og segja frá því sem hæst ber á alþjóðavettvangi. Fréttaskýringaþættir um erlend málefni eru hverfandi og viðfangsefni þeirra minna oft á sérvisku.

Þetta er ef til vill óhjákvæmileg þróun en hún eykur ekki þörfina á að rúmum sex milljörðum á ári sé varið til að hún haldi áfram.