16.2.2022 9:29

Fréttastofan og farsíminn

Sé það vernd heimildarmanna ættu þeir að vera áhyggjulausir miðað við dómafordæmi. Heimildin er öllum ljós. Hún er farsími sem stolið var.

Lögregla á Norðurlandi eystra rannsakar nú sakamál sem snýr að friðhelgi einkalífs. Vill lögreglan fá upplýsingar hjá fjórum fréttamönnum vegna rannsóknarinnar.

Látið er eins og með ósk sinni vegi lögreglan að rétti blaðamanna til að halda leynd yfir heimildarmönnum sínum. Þeir fjölmiðlamenn sem kynna málið á þennan hátt hljóta að gera það gegn betri vitund og í því skyni að blekkja áheyrendur eða lesendur.

Fréttastofa ríkisútvarpsins tjaldar öllu í því skyni að boða kenninguna um vernd heimildarmanna. Formaður blaðamannafélagsins er í hópi fréttamanna á ríkisútvarpinu og fer mikinn. Nefnir til dæmis að hún hafi sem blaðamaður á Fréttablaðinu komist refsilaust frá því að birta fréttir sem reistar voru á stolnum tölvubréfum.

Í Kastljós þriðjudaginn 15. febrúar var kallað á Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmann Pírata, til að reifa málið á forsendum sem fréttamaðurinn, viðmælandi hennar, gaf sér án þess, að eigin sögn, að vita hvort þær væru réttar! Umræðurnar snerust um vernd heimildarmanna.

16pic_2430228_bÞá kallaði fréttastofan til lögmann sem reisti skoðun sína á málflutningi fréttamannanna um vernd heimildarmanna og sagði nær útilokað að þeir yrðu ákærðir og fréttastofan setti í fyrirsögn á ruv.is: ,,Afar ólíklegt að blaðamennirnir fjórir verði ákærðir."

Af þessu tilefni sagði Bjarni Benediktsson ráðherra á Facebook:

„Þetta er áður en nokkur maður veit hvaða gögn lögreglan hefur eða hvaða spurninga hún leitar svörum við. Eru einhver fordæmi fyrir svona vinnubrögðum fréttastofu?“

Það vefst ekki neitt fyrir leiðarahöfundi Fréttablaðsins í dag, miðvikudag 16. febrúar, afmælisdag hæstaréttar, að fella dóm í málinu sem er enn til rannsóknar. Aðalheiður Ámundadóttir, fyrrv. starfsmaður þingflokks Pírata, segir að aldrei í Íslandssögunni hafi „blaðamanni verið gert skylt með dómi að gefa upp heimildarmann sinn“. Ítrekað hafi „verið staðfest með dómi að blaðamönnum [sé] heimilt að vinna upp úr þeim gögnum sem þeir hafa komist yfir, ef málið sem um ræðir á erindi til almennings“.

Veit Aðalheiður að rannsókn lögreglu snúi að þessu? Eða er hún föst í blekkingarvef? Eru stóryrðin sett fram til að hræða lögreglu frá að sinna skyldu sinni við rannsókn sakamáls? Hún segir kröfu Bjarna Benediktssonar um að allir séu jafnir fyrir lögunum „ekki aðeins forkastanleg[a] heldur blátt áfram lygileg[a]“. Og síðan kemur rúsínan: „Ríkisstjórnir hafa sprungið af minna tilefni.“

Vegna alls þessa uppnáms vaknar spurningin: Hvaða hagsmunir eru þarna í húfi hjá fréttamönnum og stuðningsmönnum þeirra? Sé það vernd heimildarmanna ættu þeir að vera áhyggjulausir miðað við dómafordæmi. Heimildin er öllum ljós. Hún er farsími sem stolið var af manni sem lá milli heims og helju og kærði vegna innbrots í símann eftir að fréttir reistar á gögnum í honum tóku að birtast.