5.8.2017 9:56

Fréttastofa hannar ranga atburðarás

Í fréttinni var rætt við Bjarna á þeirri forsendu að hann hefði verið starfandi innanríkisráðherra septemberdagana 2016. Nú hefur verið upplýst að svo var ekki.

Magnús Guðmundsson birti skoðun sína á leiðarastað í Fréttablaðinu miðvikudaginn 2. ágúst og sagði meðal annars:

„Ríkisvaldið, fulltrúi samfélagsins, hefur nefnilega þann háttinn á að ýta vandanum á undan sér og margfalda þannig afleiðingarnar. Nú stendur ríkisvaldið líka frammi fyrir þeim vanda að konur sem voru barnungar beittar kynferðislegu ofbeldi ætla ekki að sætta sig við að ríkisvaldið þurrki sögu þeirra út. Ákveði fyrir þeirra hönd að það sé eins og það hafi aldrei gerst. Réttmætt andóf þessara kvenna og aðstandenda þeirra virðist vera vandamál fyrir ríkisvaldið. Vandamál fyrir Bjarna Benediktsson sem sat á ráðherrastóli og skrifaði upp á að Robert Downey, maðurinn sem braut svo gróflega gegn þessum stúlkum, fengi uppreist æru.

Bjarni virðist ætla að hafa íslenska háttinn á og bíða af sér storminn og vona að raddirnar þagni. En það er einungis rétt að benda á að það leynir sér ekki að þetta er vandamál sem er ekki að fara að gufa upp, þvert á móti vex það með degi hverjum. Því þau sem kalla eftir gagnsæi, ábyrgð, réttlæti og breytingum til hins betra eru ekki rekin áfram af pólitískum metnaði eða sérhagsmunum, heldur af kærleika og vilja til þess að bæta samfélagið. Það er afl sem enginn getur beðið af sér.“

Kristín Þorsteinsdóttir birtti skoðun sína á leiðarastað Fréttablaðsins laugardaginn 5. ágúst og sagði meðal annars:

„Nú er komið á daginn að Bjarni Benediktsson var ekki starfandi innanríkisráðherra þegar skrifað var upp á ákvörðun um að veita Robert Downey, margdæmdum kynferðis­afbrotamanni, uppreist æru.

Upp á ákvörðunina skrifaði Ólöf Nordal heitin, þáverandi innanríkisráðherra. Líklega hefur Bjarni viljað hlífa Ólöfu og minningu hennar við því uppnámi sem málið olli.

Það er röng nálgun að láta þetta mál snúast um persónur og leikendur. Verkferlar í ráðuneytum, eins og þegar glímt er við mál sem varða uppreist æru, snúast um lög og reglur, venjur og hefðir. Tilgangurinn er að binda hendur þeirra sem með völd fara hverju sinni og koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir.

Ekkert hefur komið fram sem bendir til að Ólöf Nordal hafi ekki tekið sína ákvörðun í samræmi við gildandi lög og þær venjur sem skapast hafa um mál af þessu tagi. Þó verður ekki fram hjá því horft að það væri meira í anda nútímastjórnsýslu að gefa upp nöfn einstaklinganna tveggja, sem mæltu með beiðni Roberts Downey. Það mun þó ekki hafa verið gert í sambærilegum málum hingað til.“

Þetta eru merkileg umskipti í sama blaðinu á fáeinum dögum. Kristín er aðalritstjóri blaðsins og setur ofan í við starfsmann sinn, Magnús Guðmundsson, með því að segja hann hafa nálgast málið á rangan hátt með því að láta það snúast um Bjarna Benediktsson.

Kristín Þorsteinsdóttir lætur þess ógetið sem gerðist sama dag og Magnús birti dæmalausa skoðun sína. Þann dag birti Morgunblaðið tímalínu sem sýndi hvernig staðið var að afgreiðslu máls Roberts Downeys í innanríkisráðuneytinu, ríkisstjórn og hjá forseta Íslands dagana 14. 15. og 16. september 2016 þegar Bjarni var ekki starfandi innanríkisráðherra.

Ástæðuna fyrir að Bjarni var gerður að geranda í málinu er að fréttastofa rikisútvarpsins (FRÚ) sá 16. júní 2017 ástæðu til að gera frétt um málið frá september 2016. Í fréttinni var rætt við Bjarna á þeirri forsendu að hann hefði verið starfandi innanríkisráðherra septemberdagana 2016. Nú hefur verið upplýst að svo var ekki. Bjarni gekk í vatnið þegar hann lét taka við sig viðtal i sjónvarpinu á röngum forsendum FRÚ. Hann tók orð fréttamannsins trúanleg án þess að kanna eða láta kanna á sjálfstæðan hátt hvort FRÚ hefði rétt fyrir sér.

Af hálfu FRÚ hefur ekki verið upplýst hvers vegna gengið var að forsætisráðherra á röngum forsendum. Hver var heimildarmaðurinn? Var þetta aðeins hugdetta? FRÚ hefur ekki beðist afsökunar á mistökum sínum og aðeins viðurkennt þau óljósum orðum. Magnús Guðmundsson hefur ekki heldur leiðrétt orð sín; það skiptir minna máli en gagnrýnisverð framganga hjá FRÚ.