Frelsisgjöf fyrir 150 árum
Í dag, 1. ágúst 2024, vinnur sjöundi forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, eið að lýðveldisstjórnarskrá með 150 ára rætur. Megi hún eiga mörg farsæl ríkisár!
Í dag, 1. ágúst, eru 150 ár frá því að Íslendingar eignuðust stjórnarskrá í fyrsta sinn. Þá, árið 1874, voru einnig 1000 ár liðin frá því að Ísland byggðist og í fyrsta sinn í sögu þjóðarinnar sótti konungur landsins hana heim, Kristján IX. Hann birti stjórnarskrána í Kaupmannahöfn 5. janúar 1874 en var hér staddur við gildistöku hennar.
Í kvöldverði sem konungur bauð til í „stóra svefnloptinu“ í húsi Menntaskólans í Reykjavík sagði konungur að með stjórnarskránni „mætti byrja nýtt tímatal í sögu landsins, tímabil framfara í líkamlegum og andlegum efnum“ eins og segir í samtímafrásögn Páls Melsteds í Víkverja.
Síðan skoraði konungur á gesti sína að drekka minni Íslands. „Undir eins og konungur hafði mælt þessi orð, kváðu skot við frá herskipunum á höfninni, en allir gestir konungs tóku undir með fagnaðarópum.“
Stytta Einars Jónssonar af Kristjáni IX. með stjórnarskrána frá 1874 (mynd: Listasafn Reykjavíkur).
Eftir ræðu konungs stóð upp ráðgjafi hans, Klein, sem varð eftir gildistöku stjórnarskrárinnar „stjórnarherra Íslands“.
Klein sagði sér skylt fyrir Íslands hönd að þakka konungi minnið sem nú var drukkið þar sem hann „hefði eptir allra hæstu skipun hans hátignar tekið að sér ráðgjafastörfin sem stjórnarherra Íslands“.
Sagðist Klein einkum ætla að láta huga sinn dvelja við stjórnarskrána sem „hans hátign hefði veitt þegnum sínum á landi þessu“. Sagði Klein að enginn gæti betur en hann sjálfur sagt að konungur hefði gefið stjórnarskrána af „besta hugarfari til Íslands og af ást til þegna sinna á þessu landi. Hans hátign hefði viljað, að stjórnarskráin yrði landi og lýð sem farsællegust og heillaríkust.“
Sagðist stjórnarherrann finna hvöt hjá sér til lýsa yfir því að væru „nokkrir annmarkar á þessari stjórnarskrá, þá væru þeir sér og sér einum að kenna. Með stjórnarskránni og með komu sinni til Íslands hefði konungur eins og Ingólfur forðum farið landnámsferð til Íslands en eigi til að leggja landið undir sig með oddi og eggju heldur til að vinna ást landsmanna og hjörtu. Með þeirri ósk, að hans hátign konungurinn fengi að gleðja sig um mörg farsæl ríkisár yfir ávöxtum frelsisgjafarinnar, og að hennar yrði neytt með hinu sama hugarfari, og hún hefði verið gefin af“ skoraði Klein á menn að drekka minni konungs.
Í þakklætis- og virðingarskyni reistu Íslendingar Kristjáni IX. minnisvarða eftir Einar Jónsson myndhöggvara. Var styttan afhjúpuð 26. september 1915 og sýnir hún konung með stjórnarskrána í framréttri hendi. Hún er táknræn að því leyti að konungur kom ekki með skrána með sér hingað um mánaðamótin júlí/ágúst 1874.
Undirrituð frumgerð stjórnarskrárinnar kom ekki endanlega til Íslands fyrr en í apríl 2003 þegar Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, var hér í opinberri heimsókn í boði Davíðs Oddssonar forsætisráðherra.
Davíð sagði að stjórnarskráin yrði til sýnis í Þjóðmenningarhúsinu ásamt hinum íslensku stjórnarskránum tveimur, fullveldisstjórnarskránni frá 1918 og lýðveldisstjórnarskránni frá 1944.
Í dag, 1. ágúst 2024, vinnur sjöundi forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, eið að lýðveldisstjórnarskrá með 150 ára rætur. Megi hún eiga mörg farsæl ríkisár!