6.5.2022 10:33

Frelsisborgari fyrir LHÍ

Telji einhverjir réttmætt að vega að sjálfstæðismönnum í nafni LHÍ hundsa þeir upphaf skólans. Þeir þekkja greinilega ekkert til sögu skólans.

Stjórnendur Listaháskóla Íslands (LHÍ) bönnuðu að sjálfstæðismenn fengju að gefa frelsisborgara úr matvarvagni sínum á skólalóðinni í Laugarnesi! Gjafir væru ekki vel séðar, trufluðu skólastarfið.

Árið 1991 leiddi uppgjör milli ríkissjóðs og Sláturfélags Suðurlands til þess að ríkið eignaðist kjötvinnsluhús í Laugarnesi sem þá var ákveðið að ráðstafa til óstofnaðs Listaháskóla Íslands. Skólinn hóf ekki starf fyrr en 1999.

ImndexÍ fyrra var loks ákveðið að LHÍ fengi samastað í Tollhúsinu við Tryggvagötu. Nær miðborg Reykjavíkur verður ekki komist og vonandi blása nemendur nýju lífi í þennan borgarhluta. Undirrita á viljayfirlýsingu um ráðstöfun á Tollhúsi ríkisins á morgun (7. maí) og segir í fréttum að borgarstjóri taki þátt í athöfninni. Við stofnun skólans fyrir um það bil aldarfjórðungi vildi Reykjavíkurborg ekki eiga þar neina aðild. Nú heitir hún fyrirgreiðslu vegna deiliskipulags og uppgjörs á landi í Laugarnesi. Fjárvana borgarsjóður þurfi örugglega ekki að inna neina greiðslu af hendi.

Gerðar voru ítrekaðar tilraunir til að stofna til ríkisrekins listnáms á háskólastigi. Þær misheppnuðust allar. Árangur náðist, þegar Ólafur G. Einarsson, þáv. menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, tók málið nýjum tökum að tillögu nefndar sem hann skipaði í upphafi tíunda áratugarins. Þá var höfðað til listamanna sjálfra og þeir hvattir til að verða bakhjarl listaháskóla.

Áður en þetta gerðist var til dæmis árið 1988 skipuð nefnd með þátttöku þriggja fyrrverandi menntamálaráðherra sem samdi drög að frumvarpi um Listaháskóla Íslands. Voru þau drög rædd víða en urðu aldrei að lögum frekar en eldri frumvörp. Nefnd frá árinu 1991 lagði til að listaháskóli yrði sjálfstæð kennslu- og rannsóknastofnun innan vébanda Háskóla Íslands, með sérstakri stjórn og eigin rektor. Háskólinn hafnaði þessum tillögum.

Nefndin sem Ólafur G. Einarsson skipaði 1992 varð einhuga um að stofna ætti einkaháskóla um listnám. Það skapaði sjálfstæði í kennslu, stjórnun og rekstri, stuðlaði að gæðum, hagkvæmni og skilvirkni, tryggði að saman færi ábyrgð og ákvörðunarvald stjórnenda, veitti skólanum frelsi til að þróa listmenntun á eigin forsendum og nýta bestu starfskrafta. Frumvarp í þessum anda var einróma samþykkt á alþingi snemma árs 1995. Þar fékk menntamálaráðherra heimild til að semja við einkaaðila um að annast listmenntunina. Skólinn var settur í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn að Kjarvalsstöðum 10. september 1999.

Af hálfu ríkisvaldsins var í upphafi lýst yfir vilja til að standa að því að búa skólanum góðan samastað. Er ánægjulegt að samstaða hafi nú náðst um aðsetur skólans og fyrir liggi staðfestur vilji ríkisins um að tryggja skólanum aðstöðu þar.

Telji einhverjir réttmætt að vega að sjálfstæðismönnum í nafni LHÍ hundsa þeir upphaf skólans. Þeir þekkja greinilega ekkert til sögu skólans eða hvernig staðið var að því að leysa hnút listnáms á háskólastigi.

Það er skondinn gjörningur að undir lok starfsemi LHÍ í kjötvinnsluhúsi SS í Laugarnesi skuli matarvagni sjálfstæðismanna bannað að aka með ókeypis frelsisborgara inn á bílastæði skólans. Efni í listaverk?