Frans páfi í Fatima
Helgisagan frá Fatima er reist á frásögn systur Luciu. Hún geymdi í hjarta sínu boðskap heilagrar Maríu sem nefndur hefur verið „leyndardómarnir frá Fatima“.
Ég fór 18. mars árið 2000 til Fatima í Portúgal. Ég hef haft áhuga á pílagrímastöðum í Evrópu og er Fatima einn þeirra. Hér birti ég lauslega þýðingu úr Le Figaro í dag:
Frans páfi er í dag í Fatima í Portúgal. Hann fer þangað til að minnast þess að 13. maí 1917 sáu þrjú börn Lucia, François og Jachinte sem sátu yfir kindum heilaga guðsmóður, Maríu mey, birtast sér. Börnin voru þá 10, 9 og 7 ára. Árið 1930 staðfesti kaþólska kirkjan réttmæti frásagnar þeirra. María flutti börnunum langan boðskap. Sex mánuðum síðar, 13. október 1917, komu nærri 70.000 manns, þar á meðal fjölmiðlamenn og vantrúaðir, saman á staðnum þar sem „kraftaverkið“ gerðist. Þá „dansaði sólin“ yfir fólkinu.
Systir Lucia andaðist árið 2005, 97 ára að aldri.
Tvö barnanna, Jacinthe og François Marto, dóu úr spönsku veikinni á árunum 1919 og 1920. Jóhannes Páll II tók þau í heilagra manna tölu 13. maí 2000 en Frans páfi mun lýsa þau dýrlinga í Fatima 13. maí 2017. Lucia de Jésus, þriðja barnið, gerðist nunna og dó 13. febrúar 2005, 97 ára gömul. Hún hefur ekki enn verið tekin í tölu heilagra en unnið er að undirbúningi þess. Það er fyrra stigið á leiðinni til að hljóta viðurkenningu sem dýrlingur.
Helgisagan frá Fatima er reist á frásögn systur Luciu. Hún geymdi í hjarta sínu boðskap heilagrar Maríu sem nefndur hefur verið „leyndardómarnir frá Fatima“. Hún hlaut þau fyrirmæli árið 1917 að segja ekki frá þriðja og síðasta leyndarmálinu fyrr en eftir árið 1960. Hún treysti ekki heimabiskupi sínum og ákvað því að senda boðskapinn í þremur köflum til Páfagarðs. Þar voru tveir fyrri hlutarnir birtir árið 1942 en þriðji hlutinn ekki fyrr en árið 2000.
Vakti mikla gagnrýni og umræður hve lengi dróst að birta síðasta leyndarmálið. Spurt var hvers vegna tveir páfar, Jóhannes XXIII (kjörinn1958, dáinn 1963) og Páll VI (kjörinn 1963, dáinn 1978) hefðu fengið vitneskju um efni leyndarmálsins án þess að segja frá því opinberlega. Eftir birtinguna töldu sumir að páfadómurinn sveipaði leyndarhjúpi yfir aðrar „sýnir“ um hnignun kristinnar trúar á Vesturlöndum. Aðrir drógu í efa gildi fullyrðinga um „helgun Rússlands“ sem hafði aldrei verið nefnd í bréfum páfa. Í hátíðarbænum sínum hefðu allir páfar, þar á meðal Jóhannes Páll II, vísað óbeint til Rússlands án þess að nefna það á nafn. Þeir hefðu ekki viljað reita rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna til reiði.
Enginn gat ætlað pólska páfanum, Jóhannesi Páli II, að fara leynt með skoðun sína um þetta efni. Hann fór þrisvar sinnum sem páfi til Fatima. Það var reynt að myrða hann á Péturstorginu í Róm 13. maí 1981, á degi kraftaverksins í Fatima. Þegar hann lá milli heims og helju eftir árásina taldi hann sér hafa verið „bjargað“ af meyjunni frá Fatima. Hann lét færa sér í sjúkrahúsið bréfið fræga sem forverar hans höfðu látið hvíla með leynd í skjalasafni Vatíkansins. Þá ákvað hann að allt efni bréfsins skyldi birt. Jóhannes Páll II leitaði staðfestingar á því hjá systur Luciu hvort hún hefði fengið boð um að reynt yrði að drepa sig. Hún staðfesti það .... þriðja leyndarmálið væri um það.
Jóhannes Páll II bað að lokum Ratzinger kardínála sem síðar varð Benedikt XVI páfi að skýra inntak boðskaparins og skyldi skýringin fylgja skjalinu þegar það birtist árið 2000. Ratzinger sló því föstu að trúarboðskapur heimskirkjunnar yrði ekki reistur á „sýn einstaklings“. Krafa heilagrar guðsmóður um ræktun trúarinnar og bæn um fyrirgefningu ætti sífellt við um alla kristna menn.
Nú bíða menn þess hvernig Frans páfi skýrir það sem sagt var við börnin þrjú í Fatima fyrir 100 árum.