7.1.2020 11:14

Framtíðarumhverfi löggæslu

Kaflaheitin bera öll með sér vísanir til mikilla breytinga á íslensku þjóðfélagi vegna aukinna alþjóðlegra tengsla, ferða- og tækniþróunar.

Embætti ríkislögreglustjóra sendi um áramótin frá sér gagnmerka stefnumiðaða greiningarskýrslu um umhverfi löggæslu á Íslandi árin 2020-2024 (desember 2019).

Í inngangi skýrslunnar segir að til þessa hafi í greiningarskýrslum embættisins almennt verið litið til 6 til 24 mánaða. Í þessari skýrslu er hins vegar litið til fimm ára (til ársloka 2024). Skýrslan er unnin af greiningardeild embættisins ásamt deild rannsóknar og þróunar og almannavarnadeild.

Þegar fjallað er um breytingar í starfsumhverfi lögreglu eru þetta fyrirsagnir á einstökum köflum:

Hlýnun jarðar/loftslagsbreytingar; Neyðarástand – náttúruvá; Samfélagsbreytingar; Fólksfjölgun og flutningar á heimsvísu; Umsóknir um alþjóðlega vernd; Skipulögð glæpastarfsemi; Félagslegur margbreytileiki; Tæknibreytingar – Tölvu- og netglæpir.

Kaflaheitin bera öll með sér vísanir til mikilla breytinga á íslensku þjóðfélagi vegna aukinna alþjóðlegra tengsla, ferða- og tækniþróunar.

2284245daf66edf3dbf36d947d8c311eStjórn á sumu er í höndum íslenskra yfirvalda en í öðrum tilvikum verða þau að laga sig að óhjákvæmilegri þróun. Til marks um hið fyrrnefnda má nefna þetta sem segir á bls. 11 í skýrslunni:

„Í ágústmánuði 2017 gekk í gildi reglugerð dómsmálaráðherra um meðferð umsókna fólks frá „öruggum ríkjum“ ... Nánast samdægurs tók umsóknum um alþjóðlega vernd að fækka og varð samdrátturinn mjög mikill fram til loka árs 2017.“

Þetta staðfestir þá skoðun að náið sé fylgst með öllum ákvörðunum íslenskra stjórnvalda af þeim sem skipuleggja hingað ferðir frá „öruggum löndum“ eins og annars staðar frá. Ákvarðanir um þetta eru ekki teknar í neinu íslensku sérrými.

Löggæslustarfið verður sífellt með sterkara alþjóðlegra svipmót og sameiginlegar aðgerðir lögregluliða margra þjóða undir forystu Europol (Evrópulögreglunnar) skipta æ meira máli. Aukin alþjóðavæðing löggæslu er nauðsynleg í baráttu við skipulagða glæpastarfsemi, mansal, peningaþvætti og annað sem ber hátt í umræðum hér á landi.

Þessi skýrsla um framtíðarumhverfi löggæslu ætti að verða til umræðu á alþingi nú þegar hugað er að skipulagi lögreglunnar og dómsmálaráðherra hefur boðað tillögur um breytingar á því.

Góð reynsla af því að hafa íslenskan tengifulltrúa hjá Europol í Haag ætti að verða stjórnvöldum hvatning til að senda íslenskan fulltrúa til starfa hjá Eurojust í Haag, það er evrópska saksóknaraembættinu.

Þá er nauðsynlegt að huga að lagaumgjörð um forvirkar heimildir lögreglu til að hún standi jafnfætis erlendum samstarfsaðilum og njóti nauðsynlegs trausts þeirra.