3.10.2021 10:26

Framsýni í landbúnaði

Meginniðurstaðan er að framlag Dana gegn loftslagsbreytingum felist í að þróa loftslagsvæna landbúnaðarframleiðslu svo að þeir stuðli að meira fæðuframboði.

Fjórir danskir fræðimenn og áhrifamenn um danskan landbúnað, Jørgen E. Olesen, Svend Christensen, Peter Ruhdal Jensen og Ejnar Schultz, birta sunnudaginn 3. október grein á vefsíðunni altinget.dk um að við gerð samkomulags um framkvæmd danskrar landbúnaðarstefnu, sem nú er á lokastigi, verði að taka mið af stöðunni í loftslagsmálum og tryggja að framleiðsla á landbúnaðarvörum flytjist ekki frá Danmörku.

Þeir minna á að með fjölgun fólks og betri lífskjörum, einkum í Asíu og Afríku, aukist þörfin fyrir matvæli gífurlega. Vegna þess reyni mjög á umhverfi og loftslag og mannkynið hafi aldrei fyrr í sögu sinni staðið frammi fyrir jafn erfiðu verkefni og nú í loftslagsmálum. Þá sé einnig þrengt að líffræðilegri fjölbreytni því að ekki líði á löngu þar til allt gott land á jörðinni verði tekið til ræktunar. Vegna þarfarinnar fyrir aukna framleiðslu muni margar dýrmætar náttúruperlur verða að víkja og tegundir hverfa.

62840Bent er á að Danir hafi flutt þungaiðnað út fyrir eigin landsteina og jafnframt lagt áherslu á að þróa tækni til að framleiða vindorku. Með nýsköpun á sviði vindorku og áherslu á nýtingu hennar hafi Danir með tækni sinni flýtt því um 10-20 ár að vindorkuframleiðsla skilaði þeim árangri sem hún gerir um þessar mundir.

Í áratugi hafi verið lögð áhersla á sjálfbæran danskan landbúnað og í landinu sé mikil fræðileg þekking fyrir hendi á grunni rannsókna og hagnýtrar samvinnu við danska bændur og fyrirtæki þeirra. Samin hafi verið leiðarvísir með skýrum hugmyndum um hvernig tryggja megi sjálfbæran danskan landbúnað sem falli að markmiðum í loftslagsmálum. Þar sé mikilvægt að stuðla að nýsköpun og rannsóknum á fjórum meginsviðum:

  • Breytt landnotkun og ný ræktunarkerfi.
  • Framleiðsla dýraafurða sé loftslagsvæn og sjálfbær.
  • Þróun matvælaframleiðslu með jurtum.
  • Þróun nýrra líftækni matvæla t.d. stofnfrumukjöts og nýrra prótíngjafa.

Þá er hvatt til að gripið sé ýmissa kerfislægra breytinga vegna landbúnaðarstarfseminnar, til dæmis hefji opinberir aðilar og einkaaðilar samstarf um að fjarlægja hindranir sem eru reistar á opinberu regluverki.

Áréttuð er nauðsyn þess að þróa framleiðslu dýraafurða vegna þess að neysla þeirra aukist jafnt og þétt, einkum í Afríku og Asíu, og enginn telji að úr henni dragi eins og málum sé háttað.

Meginniðurstaðan er að framlag Dana gegn loftslagsbreytingum felist í að þróa loftslagsvæna landbúnaðarframleiðslu svo að þeir stuðli að meira fæðuframboði til fjölgandi íbúa heims með minna land til umráða. Jafnframt beri að þróa nýja tækni sem hafi alþjóðlegt gildi. Það leiði til fleiri starfa í Danmörku eins og gerst hafi í vindorkuiðnaðinum.

Aðstæður eru vissulega aðrar í dönskum landbúnaði en íslenskum. Lesi menn hins vegar landbúnaðarstefnuna Ræktum Ísland! sjá þeir samhljóm í tillögunum þar og því sem dönsku áhrifamennirnir telja að stefna eigi í dönskum landbúnaði. Vonandi ríkir framsýni fyrir íslenskan landbúnað meðal þeirra sem nú vinna hér að stjórnarmyndun.