21.2.2023 10:38

Framkvæmd EES rædd á alþingi

Þingskýrslan nær yfir framkvæmd EES-samningsins árið 2021 og fram á mitt ár 2022. Þá er því lýst sem er nú á döfinni í samskiptum Íslands og ESB og á vettvangi EES-samstarfsins.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flytur alþingi í dag (21. febrúar) skýrslu um framkvæmd EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Við aðildina hófst þróun sem hefur gjörbreytt íslensku þjóðfélagi á þann veg að með sönnu er unnt að greina skýran mun „fyrir og eftir“ þegar litið er til framvindu og þróunar á öllum sviðum.

Tvær skýrslur liggja fyrir af hálfu stjórnvalda um framkvæmd samningsins, annars vegar frá 2007 og hins vegar 2019. Í síðari skýrslunni voru lagðar fram tillögur sem sneru að aðferðum innan stjórnsýslunnar til að standa á markvissari hátt að hagsmunagæslu við framkvæmd samningsins. Þar skipta vel rökstuddar tillögur í þágu íslenskra hagsmuna sem lagðar eru fram á réttum stað og tíma sköpum.

Vegna þingumræðunnar í dag lagði utanríkisráðherra 41 bls. skýrslu fyrir alþingi og er þar að finna mikið magn upplýsinga sem enginn getur hunsað sem vill ræða EES-aðildina á málefnalegum grunni. Þar er einnig lýst tímabærum stjórnsýsluumbótum í anda EES-skýrslunnar frá 2019.

Þingskýrslan nær yfir framkvæmd EES-samningsins árið 2021 og fram á mitt ár 2022. Þá er því lýst sem er nú á döfinni í samskiptum Íslands og ESB og á vettvangi EES-samstarfsins.

EFTA_HouseEFTA húsið í Brussel hýsir stofnanir sem vinna að framkvæmd EES-samningsins og eftiliti með framkvæmd hans.

Augljóst er af lestri skýrslunnar að „græn málefni“ sem rekja má til skuldbindinga sem aðildarríki EES-samstarfsins hafa gengist undir í samræmi við Parísarsamkomulagið um loftslagsmál frá 2015 ber nú hvað hæst í löggjafar- og reglusetningu á EES-svæðinu.

Undanfarin ár hefur mótun regluverks um fjármálastarfsemi í kjölfar bankahrunsins 2008 sett mestan svip á laga- og reglusmíðina. Nú má segja að samgöngumál taki mikið rými.

Í ítarlegu máli er vikið að aðgerðum íslenskra stjórnvalda til að tryggja sem best samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga þegar samið verður um upptöku ESB-gerðar um aukna íblöndunarskyldu á vistvænu eldsneyti í flugvélar og breytingar á viðskiptakerfi með losunarheimildir í flugi í EES-samninginn. Breytingarnar öðlast gildi 1. janúar 2024 í ESB. Segir í skýrslu utanríkisráðherra að það sé „mat stjórnvalda að með þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í að kynna málstað Íslands sé búið að skapa afar mikilvægan grundvöll að viðræðum um nauðsynlegar aðlaganir þegar til álita kemur með hvaða hætti gerðin