17.3.2020 12:19

Frakklandsforseti skellir í lás

Fyrir eyþjóð eins og okkur Íslendinga er óhugsandi að flugsamgöngur falli niður þótt þær hljóti að dragast saman eins og annað.

Þegar Frakklandsforseti ávarpar þjóðina er það jafnan frá Elysée-höllinni í aðalsjónvarpsfréttatíma kvöldsins klukkan 20.00 og umgjörðin er glæsileg utan og innan hallarinnar.

Emmanuel Macron talaði enga tæpiungu að kvöldi mánudags 16. mars þegar hann marglýsti yfir að Frakkar ættu „í stríði“ við Covid-19 veiruna og stjórn sín legði allt undir til að sigrast á henni. Lögreglu og her, um 100.000 manns, yrði beitt til að framfylgja ákvörðuninni: Haldið ykkur heima!

20200317PHOWWW00004Enginn má vera utan dyra í Frakklandi án þess að eiga lögmætt erindi.

Frá og með hádegi í dag 17. mars er bannað að fara út fyrir hússins dyr í Frakklandi nema sér til heilsubótar, til kaupa á nauðsynjum eða til vinnu sé ekki unnt að stunda hana heiman frá sér. Þessum reglum skal fylgt í minnst 15 daga en þær kunna að gilda lengur sé þess talin þörf. Hverjum Frakka ber að staðfesta með undirskrift sinni á þar til gerðu vottorði frá innanríkisráðuneytinu að hann sé utan dyra í lögmætum erindagjörðum samkvæmt reglunum frá 16. mars 2020. Reglunum verður fylgt eftir með refsingu, allt að 135 evru (um 20.000 kr.) sekt.

Hættið að heilsast með kossum eða handabandi. Farið aðeins í heilsubótargöngu eða stutta göngu til að viðra hundinn. Engir vinafundir, engin snerstisamskipti við fjölskylduna, engir útileikir eða ljúfar vorstundir í görðum Parísar, þannig hljóða fyrirmælin.

Forsetinn og stjórn hans hafa sætt gagnrýni fyrir að leyfa fyrri umferð sveitarstjórnarkosninganna sunnudaginn 15. mars, seinni umferðinni er nú frestað til 21. júní og þá hefur forsetinn lagt til hliðar umdeilt frumvarp sitt um breytingar á eftirlaunalögunum.

Stórfé verður varið til að koma í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækja. Herinn setur upp hersjúkrahús í austurhluta Frakklands, Alsace. Fulltrúum ríkisins er heimilt að nýta hótel og leigubíla, ríkið borgar „hvað sem það kostar“ sagði forsetinn.

Miðstjórnarvald í Frakklandi er mikið á tímum en þar eins og hvarvetna annars staðar segjast menn ekki muna eftir neinu sambærilegu opinberu rofi á daglegu lífi á friðartímum.

Forystumenn Evrópusambandsríkjanna bera saman bækur sínar á fjarfundi í dag og ræða meðal annars tillögu sem Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynnti í gær um að loka alfarið ytri landamærum Schengen-svæðisins en innan þess hafa mörg ríki nú þegar lokað innri landamærum sínum. Í framkvæmd skiptir tillaga af þessu tagi litlu eftir að þjóðir hafa skellt í lás eins og Frakkar núna.

Fyrir eyþjóð eins og okkur Íslendinga er óhugsandi að flugsamgöngur falli niður þótt þær hljóti að dragast saman eins og annað. Við höfum á undanförnum árum fylgt stefnu sem lýst er með orðunum just in time economy og rakin eru til eins af forstjórum Apple sem sagði að á tímum hnattvæðingar og greiðra samgangna ættu fyrirtæki ekki að festa fé í vörugeymslum heldur treysta á að þau fengju vöruna sem þau þyrftu einmitt á þeim tíma sem hennar væri þörf.

Þetta er andstæða við það sem á sínum tíma var lýst með orðinu hagvarnir og fól í sér opinbera birgðasöfnun af ýmsu tagi. Flest ríki hafa horfið frá henni eins og kapphlaupið um andlitsgrímur og öndunarvélar sýnir.