6.12.2021 10:51

Frakkland: forsetaframboð skýrast

„Ég er eina manneskjan sem get sigrað Emmanuel Macron. Ég er sigursæl kona sem nær ágrangri,“ segir Valérie Pécresse,.

Línur skýrast vegna forsetakosninganna í Frakklandi í apríl 2022. Miðjumaðurinn Emmanuel Macron býður sig fram til endurkjörs. Sósíalistar hafa valið Anne Hidalgo, borgarstjóra í París, sem frambjóðanda sinn. Marine Le Pen verður í framboði fyrir Þjóðarhreyfinguna. Hægra megin við hana kemur Eric Zemmour, sjónvarpsmaður og róttækur dálkahöfundur, sem stofnað hefur flokkinn Reconquête! (Endurheimt!) og höfðar til þess að sannir Frakkar eigi að endurheimta ráð í landi sínu.

Hefðbundinn hægri flokkur Frakklands sem nú nefnist Les Républicains (LR), Lýðveldissinnar, valdi laugardaginn 4. desember Valérie Pécresse, leiðtoga sinn í Parísarhéraðinu, sem frambjóðanda sinn. Stóra spurningin er hvort hún nær nægu fylgi til að keppa við Macron í seinni umferð kosninganna vorið 2022.

QAZTJT2OO43BFYAP53G7FNUSXEValérie Pécresse,

Innan LR var háð hörð prófkjörsbarátta og var ESB-brexitsamningamaðurinn Michel Barnier meðal frambjóðenda en hafði ekki erindi sem erfiði. Lokabaráttan stóð milli Valérie Pécresse og Erics Ciottis sem kallaður er harðlínumaður í flokknum.

Kona hefur aldrei fyrr verið forsetaframbjóðandi franskra hægrimanna. Valérie Pécresse vill aðhaldssemi og leggur áherslu á lög og rétt. Hún vill endurreisa „stolt Frakka“ og boðar niðurskurð opinberra útgjalda, herta útlendingalöggjöf, varðstöðu um „fjölskyldugildi“ og sókn gegn glæpum og félagslegu öryggisleysi.

„Ég er eina manneskjan sem get sigrað Emmanuel Macron. Ég er sigursæl kona sem nær ágrangri,“ segir hún.

Allar spár segja að Macron verði endurkjörinn. Á hinn bóginn er það örugglega rétt mat hjá Valérie Pécresse að hún ein frambjóðenda gæti sigrað hann. Næði hún flugi og kæmist í aðra umferð forsetakosninganna gegn Macron en hvorki Marine Le Pen né Eric Zemmour mætti Macron passa sig. Með Le Pen eða Zemmour sem andstæðing mundu lýðveldissinnar fylkja sér um Macron og tryggja honum sigur. Sósíalistar eru í raun á jaðri franskra stjórnmála um þessar mundir og Hidalgo geldur þess.

Stuðningur kjósenda í París við Hidalgo í borgarstjórnarkosningum laðar ekki að henni fylgi utan borgarinnar. Þessi skil á milli höfuðborgarbúa og nágranna þeirra eða landsmanna almennt er ekki einsdæmi fyrir Frakkland. Við þurfum ekki annað en líta þess sem hér er. Samfylkingin á borgarstjóra í Reykjavík en er að hruni komin á alþingi og í nágrannabæjum Reykjavíkur.

Árið 2017 rann keppni LR við Emmanuel Macron út í sandinn þegar grunur vaknaði um að frambjóðandi þeirra François Fillon hefði gerst sekur um lögbrot. LR hefur ekki átt forseta síðan 2012. Nafn flokksins, Lýðveldissinnar, er bein skírskotun til þess að Charles de Gaulle lagði grunn að 5. lýðveldi Frakklands árið 1958 og vildi skapa stjórnfestu með valdamiklum forseta.

Eric Zemmour (63 ára) er óþekkta stærðin í frönskum stjórnmálum um þessar mundir. Hann tilkynnti formlega um framboð sitt þriðjudaginn 31. nóvember. Hann hélt fyrsta kosningafund sinn sunnudaginn 5. desember þegar þúsundir manna komu saman í sýningarhöll í úthverfi Parísar. Í hvert sinn sem hann mælti fyrir hertum aðgerðum í útlendingamálum var orðum hans innilega fagnað en baulað var hástöfum þegar hann nefndi Macron.

„Nú er gífurlega mikið í húfi: sigri ég verður það upphaf þess að við endurheimtum fallegasta land í heimi,“ sagði Zemmour i ræðu sinni.

Hann var tekinn hálstaki af andstæðingi sínum á leið inn í fundarsalinn og innan dyra létu andstæðingar rasisma, SOS Racisme, að sér kveða til að hleypa upp fundinum. Fylgi Zemmours hefur dvínað samkvæmr könnunum og með Parísardfundinum vildi hann snúa vörn í sókn. Kjósendur telja Marine Le Pen betur stjórnhæfa en Zemmour. Hún er nú mildari í yfirlýsingum en áður, ekki síst í garð ESB- og evru-aðildar Frakka.

Zemmour er talsmaður stefnu sem kennd er við „útskiptin miklu“, það er að múslimar nái undirtökunum í Frakklandi. Hann tryggir að útlendingamál ber hátt í frönskum stjórnmálum næstu mánuði.