6.6.2024 10:35

Frá Normandí til Úkraínu

Í dag minnist enginn þeirra sem á sínum tíma töldu að semja mætti um allt við Hitler. Þeir hvíla á sínum stað í sögunni og eru nefndir til marks um víti til að varast.

Í dag er þess minnst á hátíðlegan hátt á ströndum Normandí í Frakklandi að 80 ár eru liðin frá því að bandamenn í stríðinu við Hitler og her hans hófu lokaátökin með landgöngu í Normandí á D-deginum 6. júní 1944.

Til þátttöku í minningarathöfninni sendu Bandaríkjamenn nokkrar herflugvélar af gerðinni DC-3, eða C-47 Douglas Dakota til Frakklands og höfðu þær viðdvöl á Reykjavíkurflugvelli.

Í hópnum var flugvélin „That’s All, Brother”. Hún var forystuvél innrásarinnar í Normandí og leiddi flug átta hundruð flugvéla frá Bretlandi til Frakklands. Bandaríkjamenn líta á vélina sem þjóðardýrgrip, sumir segja hana sögufrægustu vélina sem enn er flogið um háloftin og milli heimsálfa.

Koma þessara flugvéla til Reykjavíkur er enn ein áminningin um gildi Íslands fyrir alla sem vilja tengja varnir Norður-Ameríku og Evrópu. Án þátttöku Íslendinga og aðstöðu hér á landi í þágu hervarna vestrænu bandamannanna gætu þeir ekki nú frekar en fyrir 80 árum tryggt öryggi á Norður-Atlantshafi og þar með aðstöðu sína til sameiginlegra varna gegn evrópsku meginlandsveldi sem ógnar nágrönnum sínum.

Screenshot-2024-06-06-at-10.32.20Breskir landgönguliðar 6. júní 2024 minnast landgöngu forvera sinna fyrir 80 árum á strönd Normandi.

Vladimir Pútin stofnaði til rússnesks útþenslustríðs í Evrópu 24. febrúar 2022 með innrásinni í Úkraínu. Hann getur ekki lengur farið frjáls ferða sinna til annarra landa enda yfirlýstur stríðsglæpamaður. Hann var ekki boðinn til athafnarinnar í Normandí.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti var meðal tignargesta við minninguna. Úkraínumenn eru nú í framvarðarlínunni gagnvart ofríkisöflum og standa því í svipuðum sporum og þeir sem sendir voru til átakanna á strönd Normandí fyrir 80 árum og er nú minnst fyrir framgöngu sína.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra bendir í grein í Morgunblaðinu í dag á að þeir sem berjist fyrir sjálfstæði sínu og frelsi gegn blóðugri innrás þurfi vopn til að verja sig. Ættu Íslendingar vopn myndu þeir styðja Úkraínumenn með vopnum en þar sem við séum ekki í þeirri stöðu getum við stutt vopnakaup með fjármagni. Friðsamleg reynsla íslensku þjóðarinnar á stríðstímum gefi „okkur hvorki tilefni til þess að setja okkur á háan hest gagnvart öðrum eða loka augunum fyrir þeim bitra veruleika að í ófriðsömum heimi er það ekki á valdi þjóða að velja sjálfar hvort á þær er ráðist eða ekki.“ Ráðherrann kennir það við hrokafulla afstöðu að skilyrða fjárhagslegan stuðning við Úkraínumenn við það sem okkur er geðfellt en ekki það sem þeir telja sjálfir koma sér að bestu notum.

Utanríkisráðherra skrifar þetta því miður ekki að tilefnislausu. Ráðherrann hefur meðal annars ástæðu til að vekja athygli Höllu Tómasdóttur, nýkjörins forseta, á stefnu ríkisstjórnarinnar og rökunum að baki henni. Halla talaði gegn þessari stefnu í kosningabaráttunni og af óvirðingu í garð þeirra sem standa nú í fremstu víglínu gegn ofríkisöflunum í Evrópu. Vonandi verður sigurs þeirra minnst eftir 80 ár en ekki Pútíns og hers hans.

Í dag minnist enginn þeirra sem á sínum tíma töldu að semja mætti um allt við Hitler. Þeir hvíla á sínum stað í sögunni og eru nefndir til marks um víti til að varast.