5.2.2023 10:39

Frá neti til gervigreindar

UTmessan 2023 bar vissulega ekki svip nýjunga frá því fyrir um aldarfjórðungi. Allt sem nú var sýnt stóð þó á þeim grunni sem þá var lagður.

UTmessan 2023 var í Hörpu 3. og 4. febrúar. Í kynningu á henni sagði að þar yrði vakin athygli á mikilvægi upplýsingatækninnar og áhrifum hennar á einstaklinga, fyrirtæki og íslenskt samfélag. Markmiðið væri að sjá marktæka fjölgun nemenda sem veldu tæknigreinar í háskólum landsins. Einnig skyldi vakin áhugi almennings á upplýsingatækni og sýna fjölbreytileika í tæknistörfum.

310065345_5707701739291680_915927418506647024_nMenntamálaráðuneytið ruddi brautina fyrir UTkynningu hér á landi. Ráðuneytið efndi til ráðstefnunnar UT99 til að greina hvernig íslenska skólakerfið stæði andspænis upplýsingatækninni. Þeir voru kallaði saman sem unnu að þróun upplýsingatækni í skólastarfi. Þeir báru saman bækur sínar og sýndu afrakstur af vinnu sinni um leið og rýnt var inn í framtíðina.

Þá strax lagði ráðuneytið áherslu á tungutækni sem nú kallast máltækni og hefur að markmiði að tryggja stöðu íslenskunnar í heimi upplýsingatækninnar. Var sérstök verkefnisstjórn skipuð til að framkvæma stefnu á þessu sviði og hafði hún rúmar 100 milljónir króna til ráðstöfunar árið 2001. Nú er enn unnið að því að laga tæknina að íslenskri tungu og mátti sjá sérstaka kynningu á máltækni á UTmessunni.

Menntamálaráðuneytið til UTkynninga sinna í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu, til dæmis í Borgarholtsskóla árið 2001. Þar voru kynntir kostir netsins sem upplýsingaveitu fyrir allt skólastarf. Námsefni yrði miðlað með markvissum hætti og samskiptum komið á milli nemenda, kennara, skólastjórnenda, foreldra, atvinnurekenda og allra, sem tengdust menntun. Í þessari sýn fólst að hefðbundnir kennsluhættir þróuðust yfir í það sem kallað var dreifmenntun og nemendur stunduðu nám í dreifskólum.

Skólum sem krefðust ekki nauðsynlega hefðbundinna bygginga væru ekki með fasta stundatöflu, kennarar og nemendur væru ekki alltaf samtímis á sama stað. Nemandinn yrði miðpunktur og sækti nám sitt eftir ýmsum leiðum og úr ólíkum áttum. Í dreifskóla yrði ekki gerður greinarmunur á staðbundinni kennslu og fjarkennslu heldur samtvinnuðust þessir kennsluhættir í dreifkennslu, þar sem jöfnum höndum væri notuð hefðbundin kennsla og þekkingu miðlað um netið.

Þetta var kynnt árið 2001 og kom sér vel um 20 árum síðar þegar heimsfaraldurinn staðfesti endanlega gildi dreifskólastarfs.

UTmessan 2023 bar vissulega ekki svip nýjunga frá því fyrir um aldarfjórðungi. Allt sem nú var sýnt stóð þó á þeim grunni sem þá var lagður. Nú voru framhaldsskólar ekki lengur í brennidepli heldur háskólar, hátækninámið sem þeir bjóða. Kynnt voru hátæknifyrirtæki sem hér hafa þróast. Þá settu fyrirtæki sem tryggja netöryggi og vernd einstaklinga í netheimum einnig svip á sýninguna í Hörpu að þessu sinni.

Áhersla á gildi netsins fyrir skólastarf var höfuðatriði UT2001. Sé eitthvað eitt sem þarf að kynna í tilefni UT2023 er það gervigreind og áhrif hennar á skólastarf og raunar öll mannleg samskipti. Breytingar vegna gervigreindar eru álíka orðið hafa fyrir tilstuðlan netsins undanfarin aldarfjórðung. Það er tímabært að virkja gervigreindina hér eins og netið var virkjað á sínum tíma.